Húnavaka - 01.05.1981, Page 155
HÚNAVAKA
153
Sr. Þorsteinn var í stjórn Guðbrandsdeildar og Prestafélags hins
forna Hólastiftis.
Þá kom hann mjög við mál manna heima í héraði. Sat hreppsnefnd
Sveinsstaðahrepps um áratugi frá 1925-67 og var í stjórn Kaupfélags
Húnvetninga frá 1936-68. Var þar um áratugi ritari, því hann skrifaði
ágæta hönd og stílaði manna best, ásamt ágætu máli. Má þar til
nefna, að hann skrifaði grein í Andvara um Guðmund Ólafsson í Ási
og ritaði stundum í Húnavöku. Þá sat sr. Þorsteinn í fræðsluráði
A.-Hún, í stjórn Sögufélagsins Húnvetningur og Sýslubókasafns.
Öll þessi störf, benda oss á að sr. Þorsteinn átti trúnað og traust
sinna samferðamanna er fundu að hann hafði góðan mann að geyma.
Þá var heimili þeirra hjóna sr. Þorsteins og Ólínu í Steinnesi ágætt,
um heimilisanda og gestrisni og reglusemi. Dró sr. Þorsteinn eigi dul á
hve stór þáttur kona hans var þar, og hve hann var lánsamur með börn
þeirra hjóna.
Sr. Þorsteinn var alvörumaður eins og hæfir þjóni Drottins og
trúmaður, um það báru ræður hans glöggt vitni. Á mannamótum var
hann glaðvær, átti létt með að blanda geði við fólk í ræðu og viðtölum.
Og kunni allt hóf á gleðskapnum.
Er hann lét af prestskap 68 ára stóð honum til boða áskorun frá
sóknarbörnum að halda áfram prestskap, er hann hefði gjarnan viljað.
En heilsa hans var þá farin að þverra þó hann sýndist sæmilega ern að
sjá. Sóttu þá Húnvetningar eftir að fá sr. Guðmund son hans, þá prest
að Hvanneyri, til að ráðast norður og gjörast þar prestur.
Við ýmis tækifæri, svo sem eyktarmörk í lífi hans, létu sóknarmenn
í ljósi þakklæti sitt til hans og færðu þeim hjónum gjafir. Og var svo er
þau hjón voru kvödd með samsæti á Blönduósi, er haldið skyldi til
Reykjavíkur.
Sr. Þorsteinn átti gott æfikvöld í Reykjavík á heimili sínu umvafinn
ástúð og umhyggju konu og barna, er elli tók að sækja á hann.
Góðir hugir Húnvetninga minnast þessa merka manns, að leiðar-
lokum, er samtíðarmenn hans líta yfir farinn veg hans meðal vor.
Sr. Þorsteinn B. Gíslason var lesinn til moldar 19. júní í Reykjavík.
Var útför hans gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík, var guðshúsið þétt
skipað og var þar margt Húnvetninga komið að norðan og þeirra er
búa sunnan heiða.
Að lokinni athöfninni drukku menn erfi hins látna að fornri sið-
venju. Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson.