Húnavaka - 01.05.1981, Page 157
HÚNAVAKA
155
Jónína Valgerður Ólafsdóttir andaðist á Héraðshælinu á Blönduósi 3.
janúar 1980. Hún var fædd 31. mars 1886 og voru foreldrar hennar
Ólafur Jóhannesson bóndi í Minnihlíð í Bolungarvík og kona hans
Margrét Ólafsdóttir, systir Marsibil konu Matthíasar Ólafssonar al-
þingismanns í Haukadal í Dýrafirði. Stóðu að Jónínu góðar vestfirskar
ættir. Fyrstu árin ólst húrj upp með foreldrum sínum á Hanhól og
síðan 1898-1911 í Minnihlíð í Bolungarvík. Ung réðist hún sem
kaupakona til Jóns Pálmasonar, ungs bónda á Ytri-Löngumýri, er
þótti gjörvulegur ungur maður, hress í tali og orkumikill. Þau Jón og
Jónina felldu hugi saman og voru gefin saman í hjónaband 26. októ-
ber 1916. Mátti segja að síðan yrði Húnaþing Jónínu annað föðurland
en hún undi sér þar vel alla æfidaga. Þar beið hennar mikil og löng
starfsæfi. Hún var fljót að tileinka sér húnvetnska búskaparhætti, og
var vel virt af vinnufólki sínu og sveitungum. Hún var sjálf sinnug
kona og gekk vel um sitt, róleg i fasi og hlý í viðmóti en ákveðin. Hún
var vinnusöm kona er vildi heiður manns síns í hvívetna og vildi öllu
fórna er hún mátti honum til brautargengis. Var henni því ljúft að
taka á sig ábyrgð og umsjón heimilis þeirra er félagsmálastarfsemi og
alþingisseta varð þess valdandi að hann var langdvölum að heiman.
Jónína var vel greind og gáfuð, hagsýn um búskapinn og skýr í máli
og skoðunum. Hún var hógvær kona og bar með sér festu í skapgerð og
sterkan persónuleika. Var hún á margan máta mikil stoð manni sínum
Jóni Pálmasyni alþingismanni og bændahöfðingja Húnvetninga. Það
duldist engum er hana þekktu að hún var góðgjörn kona er bauð af sér
góðan þokka. Það er glöggt dæmi um framgöngu Jónínu, er tengda-
dóttir hennar spurði hana ráða hvernig eitthvað skyldi haft, þá svaraði
hún ekki: Þetta skal vera svona, auðvitað er það best. Heldur svaraði
hún með ljúfri lund og hógværð: Ég hefði haft það svona, svo að þeim
er spurði var gefið frjálst val.
Þau hjón Jónína og Jón fluttu 1923 að Akri í Torfalækjarhreppi. í
mínum huga hef ég jafnan álitið að Jónína hafi verið fús til að fara nær
sjónum því að af húsahlaði á Akri má líta til allra átta, — Vestfirði,
Strandafjöll — og það er óvenju hlýlegt á vatnsbakka Húnavatns.
Þetta umhverfi minnti á víkina góðu, lækina með spriklandi silungi og
fiskisæla vatnið hjá Minnihlíð.
Þeim hjónum farnaðist vel á Akri, enda er búsældarlegt þar. Fjölda
ára máttu þau búa í gömlum bæ á Akri, en þau nutu þess líka að sjá
gott íbúðarhús eftir kröfu tímans og ný útihús.