Húnavaka - 01.05.1981, Page 162
160
HÚNAVAKA
Björnssyni bónda. Eignuðust þau Valgerður og Frímann sjö börn, þar
á meðal Bjarna Óskar bónda á Efri-Mýrum og Hilmar bónda á
Fremstagili. Var alla tíð vinátta með Halldóri og hálfbræðrum hans.
Hann naut því góðs uppeldis í skjóli móður sinnar, húsfreyjunnar í
Hvammi.
Halldóri mun snemma hafa verið búskapur hugleikinn. Hann þótti
góður hirðir og heyskaparmaður. Þá hafði hann hneigð til smíða eins
og síðar getur. Halldór vann á heimilinu í Hvammi er honum óx fiskur
um hrygg. Síðan varð hann vinnumaður á ýmsum bæjum á Asum.
Arið 1905 þegar Halldór var heima í Hvammi, var þar á vist
Guðrún Bjarnadóttir, Gíslasonar bónda á Syðri-Þverá í Vesturhópi.
Bjarni var síðar á Björnólfsstöðum. Hugir þeirra Halldórs og Guð-
rúnar hneigðust saman, en hann er þá kominn fast að tvítugu, en hún
að byrja fertugsaldurinn. Hún átti son er ólst upp með henni, en það
var Jakob Bjarnason síðar bóndi á Síðu. Hún var myndarleg kona og
vel gefin, dugleg til allra verka.
Þau eignuðust þessi börn:
Valgerði Guðmundinnu er andaðist ógift, Ósk Halldóru gifta Ein-
ari Þorsteinssyni skrifstofustjóra í Reykjavík, Skarphéðinn sparisjóðs-
stjóra á Akureyri kvæntan Kristínu Sigurbjörnsdóttur og Hólmfriði er
andaðist á fyrsta ári.
Þau Halldór og Guðrún hófu búskap á Móbergi, síðan á Refsstöð-
um á Laxárdal, en bjuggu síðan í Holtastaðakoti 1916-1927 og á
Æsustöðum 1928-30. Þótt harðbýlt sé á Laxárdal, féll Halldóri þar
vel. Allir bæir voru þá í byggð, fjölmenni í dalnum og mikið félagslíf.
Ungmennafélagið var upp á sitt besta, með glímu og íþróttaiðkun,
söng og ýmsu fleiru. Halldór var félagslyndur alla æfi og þeim hjónum
búnaðist þarna vel.
Mér finnst alltaf að Halldór hafi unað hag sínum best í Holta-
staðakoti á þessum búskaparárum, en það er á bezta stað í dalnum.
Þar er veðursælt og gróandi.
Halldór og kona hans Guðrún voru kirkjurækin, og söng Halldór
jafnan í kirkjukór Holtastaðakirkju, enda hafði hann yndi af söng.
Dáði hann mjög presta sína, svo sem sr. Luðvig Knudsen, sr. Jón
Pálsson og þó einkum sr. Gunnar Árnason fyrir ræðusnilld hans og
fannst hann vel þenkjandi og guðhræddur maður. Halldór var trú-
maður mikill og alvörumaður, sem átti sína trúarvissu um handleiðslu
Drottins oss til handa, ef vér leitum til hans í bænum vorum.