Bókasafnið - 01.05.2012, Síða 24
24
bókasafnið 36. árg. 2012
fyrir Borgarbókasafn, sem ég leyfi mér að segja að hafi líka haft
áhrif á önnur almenningsbókasöfn í landinu, sveitarfélögin
kepptust um að gera vel við bókasöfnin sín, bókasafnabóla
blés út. Við fengum nýjan bókabíl, Höfðingja, 2001 og síðar
sama ár flytur Bústaðasafn í nýtt húsnæði í Kringlumýri og
kallast þá Kringlusafn, Ársafn í Árbæjarhverfi var opnað 2004
og sögubíllinn Æringi fer af stað 2008.
Lánaðist að stofna Landskerfi bókasafna
Því miður, þegar Borgarbókasafn og fleiri söfn tölvuvæddust
í kringum 1990, þá tókst ekki að sameinast um eitt kerfi fyrir
bókasöfn landsins, það var reynt á þeim tíma, en tókst ekki.
Það var alveg stórkostleg breyting þegar Borgarbókasafn og
fleiri söfn tóku Feng í notkun og Landsbókasafn og fleiri söfn
Gegni, en þessi aðskilnaður tölvukerfa var því miður hamlandi
fyrir samstarf, nú svo ekki sé talað um óþarfa tvíverknað.
Við finnum svo vel muninn. Þegar okkur lánaðist að stofna
Landskerfi bókasafna fyrir rúmum tíu árum, árið 2001 og taka
í notkun árið 2003 eitt kerfi fyrir allt landið, sem fékk nafnið
Gegnir, breytti það miklu varðandi samstarf, verkaskiptingu,
samþættingu. Slagkrafturinn í bókasöfnum landsins hefur
orðið meiri og erum við öfunduð af erlendum kollegum
vegna þessa. Samstarfið vegna Landsaðgangsins hvar.is
hefur enn frekar aukið slagkraftinn í bókasöfnunum. Árið
margumtalaða 2007 var hafin vinna við að þróa þjónustu
Landskerfis enn frekar með því að bæta viðmót kerfisins en
svo verður hrunið 2008 og þá voru menn við það að gefast
upp. Sem betur fór létum við hrunið ekki slá okkur út af laginu
og leitir.is leit dagsins ljós.
Hér má líka nefna sjálfsafgreiðsluvélarnar sem teknar
voru í notkun árið 2007 og rétt sluppu í hús fyrir hrunið, en
þær hafa gjörbreytt vinnu starfsmanna Borgarbókasafns.
Auðvitað voru margir á varðbergi gagnvart þessu og héldu
að starfsmönnum yrði sagt upp, en það kom auðvitað aldrei
til greina. Innleiðing sjálfsafgreiðsluvélanna hefur hins vegar
losað starfsmenn undan rútínuvinnu og gefið þeim færi á að
fara í önnur og fjölbreyttari verkefni.
Rýmið – hætt að vera svona hæversk
Ég hef stundum sagt að almenningsbókasafn væri starfs-
mennirnir, safnkosturinn og húsnæðið eða rýmið í þessari röð.
Lengst af var Gerðubergssafn, sem var opnað 1986 í Breiðholti,
eina safnið sem var í ásættanlegu húsnæði, rými þar sem hægt
var að bjóða upp á alvöruþjónustu og viðburði. Rýmið hefur
stækkað, ekki aðeins innan fjögurra veggja bókasafnanna.
Við lítum æ meir á alla borgina sem almenningsrými þar
sem Borgarbókasafn er mótandi og tekur þátt. Við erum inni
í húsnæði annarra með til dæmis fjölmenningarverkefni,
á götum úti, til dæmis menningargöngur og hátíðir, eða í
sýndarheimi eins og með bókmenntavefinn. Við vildum ekki
vera uppáþrengjandi, vildum gæta virðingar, áttum bara að
vera til staðar og fólk átti að koma til okkar. Við erum hætt að
vera svona hæversk. Nú erum við miklu ófeimnari, jafnvel við
að gera mistök, við erum í fjölmiðlum og starfsmenn koma
fram sem talsmenn einstakra verkefna safnsins. Ég hef alltaf
lagt mikla áherslu á það sem yfirmaður að það sé ekki ég sem
er alltaf að segja frá starfseminni. Hver yrði ekki hundleiður á
því að heyra alltaf í sama starfsmanni safnsins? Þeir sem eru
með verkefnin gera það miklu betur en ég og af miklu meiri
eldmóði. Ég treysti samstarfsmönnum mínum sem nánast
undantekningarlaust gera miklu meira og miklu betur en
einhverjir hefðu kannski haldið fyrirfram. Það er bara þannig.
Við erum einhvern veginn miklu afslappaðri með hvað ,,á
við“ í bókasafninu, óhræddari við að bjóða einstaklingum eða
hópum sem eru með spennandi hugmyndir að vinna með
okkur. Við leggjum áherslu á sem fjölbreytilegasta viðburði af
því nú getum við það rýmisins vegna. Gott dæmi er að núna
í maí verður fundaröð, þrír fundir, þar sem fram fer kynning á
forsetaembættinu og frambjóðendur kynna sig.
Samræmi í þjónustu – hvert sitt svipmót
Við erum löngu búin að úthýsa orðinu útibú! Söfnin eru
hverfissöfn en ekki ,,útibú“ frá, ja hverju, aðalsafni? Þótt það
þurfi auðvitað að vera mjög gott samræmi í þjónustu, þá er
miklu skemmtilegra að söfnin hafi hvert sitt svipmót. Áherslur
og leiðir geta verið mismunandi og þó að eitt safn sé að gera
eitthvað, þá þarf ekki endilega næsta safn að vera að gera
nákvæmlega sama hlutinn. Það er bara skemmtilegra að það
sé breytileiki, bæði í rýminu, hvað fólk sér þegar það kemur inn
og hvað er að gerast. Mér finnst það mikið atriði að starfsfólkið
á hverfissöfnunum hafi tiltölulega frjálsar hendur, því það
veit best hvað hentar í hverju hverfi, þar eru mismunandi
stofnanir, vinnustaðir, skólar og mismunandi möguleikar og
tækifæri. Mjög oft er það sama að gerast í mörgum, jafnvel
í öllum söfnum en líka hafa þau ólíkar áherslur og fara ólíkar
leiðir til að örva.
Ég nefndi áður að Reykjavík varð ein af menningarborgum
Evrópu árið 2000. Þá settum við upp í nýja aðalsafninu stóra
farandsýningu með bókum frá öllum menningarborgunum
níu. Afar minnistætt og hefði ekki verið mögulegt að gera nema
í þessu nýja húsnæði. Það afsprengi menningarborgarársins
2000 sem lifir er Bókmenntavefurinn, bokmenntir.is, sem er
ein af skrautfjöðrunum okkar. Hann var upphaflega hluti af
samstarfsverkefni sex af níu menningarborgunum. Verkefnið
Bókasýning menningarborganna árið 2000.