Bókasafnið - 01.05.2012, Síða 32
32
bókasafnið 36. árg. 2012
stríðsins, einkum milli ólíkra hluta Þýskalands, settu svip sinn á
messuna og til eru sögur af „bókanjósnurum“ sem sendir voru
til Frankfurt undir dulnefni og skrifuðu skýrslur fyrir austur-þýsk
stjórnvöld. Andrúm ´68 barst líka inn á messuna; árið 1967 var
efnt til mótmæla hjá stóru þýsku bókaforlagi og ráðist var á
bás grískra bókaútgefenda, mótmæli héldu áfram árin á eftir.
Á messunni síðasta haust birtust atburðir dagsins í dag meðal
annars í dagskrá um „arabíska vorið“.
Ísland í Frankfurt
Samfélagið og þróun í bókaútgáfu hafa ekki verið eina afl
breytinga á bókamessunni. Stjórn messunnar hefur stöðugt
endurskoðað skipulag hennar, meðal annars í þeim tilgangi
að gæta jafnvægis milli menningar og markaðar. Á 8. og 9.
áratugnum voru gerðar tilraunir með ákveðin þemu, ýmist
bókmenntir ákveðins heimshluta, bókmenntir Suður-Ameríku
(1976), svörtu Afríku (1980) og Indlands (1986) eða ákveðna
tegund bókmennta, barnabókmenntir (1978), trúarbrögð
(1982). Sú hefð að bjóða einni þjóð sæti heiðursgests hvert ár
tók við af þessum þemum, en frá árinu 1988 hefur einstökum
þjóðum verið boðið, sem heiðursgestur, að kynna sig
sérstaklega. Fyrst var Ítalía og í kjölfarið fylgdu Frakkland (1989),
Japan (1990), Spánn (1991) og Mexíkó (1992). Ísland fylgdi í
kjölfar Argentínu sem var heiðursgestur 2010, árið áður var það
Kína. Ísland er fyrst Norðurlanda til að njóta þessa heiðurs, en
einhvern tímann í aðdragandanum kom til umræðu að bjóða
Norðurlöndunum sameiginlega.
Hver þjóð hefur sinn hátt á því með hvaða hætti hún
nálgast verkefnið. Ég fékk tækifæri til að fylgjast nokkuð með
undirbúningi þess hér heima, í aðdragandanum hitti ég Halldór
Guðmundsson verkefnisstjóra, nokkrum sinnum, og aðra sem
unnu að undirbúningi þátttöku Íslands. Hópurinn hafði allan
tímann samstarfsmenn í Þýskalandi og að messunni lokinni
átti ég fund með einum þeirra, Thomas Böhm, sem eyddi með
mér eftirmiðdegi í Literatur Haus í Berlín og rakti hann fyrir mér
undirbúning Íslandsverkefnisins af hálfu Þjóðverja. Þetta nána
samstarf bauð upp á að nálgast verkefnið með öðrum hætti en
oftast er gert. Í stað þess að stýra verkefninu algjörlega héðan
og ákveða hvað við vildum sýna var allan tímann spurt: „Á
hverju hafa Þjóðverjar áhuga?“ Þeim var sýnt hvað Ísland hafði
að bjóða, bæði í bókmenntum og öðrum listum og svo ákváðu
þeir hvað þeir vildu fá.
Þátttaka Íslands var ekki bundin við dagana fimm sem
bókamessan stendur. Íslenskar bókmenntir, menning og
samfélag voru í kastljósinu allt árið og viðburðir tengdir Íslandi
víða um Þýskaland. Heiðursgestur tekur þátt í opnunarhátíð
bókamessunnar og hann lýkur henni einnig með því að
afhenda keflið næsta heiðursgesti, að þessu sinni Nýja-
Sjálandi. Í sýningarhöllinni hefur heiðursgesturinn sérstakan
skála til umráða þar sem hann hefur frjálsar hendur með það
hvernig hann kynnir bókmenntir sínar og menningu. Líkt
og í undirbúningnum fóru Íslendingar óhefðbunda leið, þar
sem náttúran, bækur og síðast en ekki síst lesendur, voru í
aðalhlutverki. Skálinn vakti mikla athygli og þótti mörgum
framlag Íslands það áhugaverðasta í langan tíma. Í skálanum
var samfelld dagskrá alla messuna og utan skálans var nærvera
Íslands sterk, bæði í básum þeirra útgefenda sem gefa út
íslenskar bækur og eins í dagskrá víða um sýningarsvæðið. Til
hliðar við skipulagða dagskrá nýttu margir „einyrkjar“ þá athygli
sem var á Íslandi til að koma verkum sínum eða hugmyndum
á framfæri. Þarna voru kennarar sem nýta sér nýjar aðferðir í
sjálfsútgáfu að kynna kennsluefni á vegum AmazonCrossing,
upplýsingafræðingur að hitta útgefendur og útlendingar með
próf í íslensku gengu milli forlaga að kynna sig sem hugsanlega
þýðendur. Nálægð Íslands var sýnileg um alla borg, á söfnum, í
tónlistar- og kvikmyndahúsum og í gluggum bókaverslana, en
sú hefð hefur skapast að veita verðlaun fyrir bestu útstillinguna
tengda heiðursgestinum og var gaman að elta uppi bókabúðir
og sjá hvort og þá hvernig íslenskar bækur voru sýndar. Að
bókamessunni lokinni skiptir mestu máli sá fjöldi íslenskra bóka
sem kom út af þessu tilefni.
Á árinu komu út um 200 bækur í tilefni verkefnisins, bæði
þýðingar og bækur um Ísland og íslenskt efni. Það er mun meira
en menn létu sig dreyma um og ástæða að geta þess að útgáfur
tengdar Íslandi voru mun fleiri en stórþjóðanna sem fóru á
undan, Kína og Argentínu. Margir rithöfundar sóttu Þýskaland
heim og fylgdu bókum sínum eftir. Þýskaland er stærsti
þýðingarmarkaðurinn í heiminum, um 40% útgefinna bóka
eru þýðingar. Aðrar þjóðir horfa því oft til Þýskalands þegar
þær ákveða hvað þær vilja gefa út. Það verður því áhugavert að
fylgjast með framhaldinu, ekki bara í Þýskalandi, heldur hvort
þessi kynning eigi eftir að greiða fyrir frekara ferðalagi íslenskra
bóka um heiminn. Hvaða áhrif mun bókamessan í Frankfurt
2011 hafa á ferðalag íslenskra bóka? Það er ein þeirra spurninga
sem mannfræðingurinn er með í farteskinu.
Í tveimur hlutverkum
Á bókamessunni var ég í tveimur hlutverkum. Annars
vegar í hlutverki starfsmanns Landsbókasafns Íslands –
Háskólabókasafns, mættur á staðinn til að átta mig á þeim
breytingum sem eru að eiga sér stað í heimi bókarinnar,
til að styrkja mig í starfi aðfangabókavarðar og að fylgjast
með þátttöku Íslands sem heiðursgests. Hins vegar var ég í
hlutverki mannfræðingsins; aðaltilgangur hans var að skoða
bókamessuna sem rannsóknarvettvang og byrja að skrásetja
ferðalag íslenskra bóka um heiminn. Starfsmaður bókasafnsins
gekk nokkuð hreint til verks, skipulagði fyrirfram hvað hann
ætlaði að sjá og á hvað hann vildi hlusta, þó dagskráin hafi
tekið breytingum í önn dagsins. Hann hélt sér mest á svæði
háskólaforlaganna og völdum „heitum reitum“, en einnig
fylgdist hann, eftir föngum, með þátttöku Íslands. Það er
dýrmæt reynsla fyrir starfsmann þjóðbókasafns að fylgjast með
því hvernig bókafólk eigin þjóðar, útgefendur, höfundar, félög
og stofnanir kynna sig á þessum vettvangi. Mannfræðingurinn
nálgaðist viðfangsefnið öðruvísi, en hlutverkin sköruðust þó á
margan hátt.
Bókavörðurinn á messunni
Fyrir starfsmann háskólabókasafns er bókamessan í Frankfurt
einstakur vettvangur til að styrkja sig í starfi, skoða stöðu sína og