Bókasafnið - 01.05.2012, Page 53

Bókasafnið - 01.05.2012, Page 53
53 bókasafnið 36. árg. 2012 til samvisku hugsanlegs bókaþjófs, áður en hann lætur verða af ætlunarverki sínu, heldur getur það einnig verið mjög afhjúpandi vitnisburður um eigandann. Bókamerkið er eitt hið fyrsta er blasir við þeim sem opnar svo merkta bók og þegar myndskreytingin eða textinn skírskotar beinlínis til sérkenna eigandans, setur það óneitanlega persónulegan blæ á fyrstu kynnin af bókinni. Smæð bókamerkja krefst þess oft á tíðum að listamenn er þau hanna verði að tileinka sér aðra nálgun en þeim er tamast, og þegar vel hefur tekist til er um mjög áhugavert listform að ræða er sýnir nýjar hliðar á listamanninum. Margir víðkunnir og snjallir listamenn hafa spreytt sig á hönnun bókamerkja í eigu íslenskra aðila, íslenskir sem erlendir, og af þeim sem hafa lagt hönd á plóginn má meðal annarra nefna Barböru W. Árnason, Bolla Gústavsson í Laufási, Björn Westergren, Dieter Roth, Edmund Peter, Gerhard Munthe, Gísla B. Björnsson, Guðmund Frímann, Gunnar Hjaltason, Hafstein Guðmundsson, Halldór Pétursson, Hring Jóhannesson, Guðmund Einarsson frá Miðdal, Jóhann Briem, Jörund Pálsson, Kurt Zier, Ríkharð Jónsson, Sigfús Halldórsson, Signe Ehrngren, Sverri Ólafsson, Torfa Jónsson, Tryggva Magnússon, Þórdísi Tryggvadóttur og fleiri. Í ýmsum tilvikum hafa bókaeigendurnir sjálfir hannað merki sín, og margir hönnuðir liggja í þagnargildi. Skipti bókin síðan um eigendur fylgir bókamerkið oftast með, enda jafnan vandkvæðum háð að losa það af síðum bókarinnar, og þannig má segja að eigandinn eða altént tákn hans ferðist með bókinni. Þegar svo ber við að einstaklingar selji eða gefi opinberum bókasöfnum bækur sínar, er ekki óalgengt að bækurnar séu merktar fyrri eiganda eftirá með bókamerkjum eða auðkennum öðrum, og þekkjast mörg dæmi þess að slíkar merkingar hafi verið gerðar sérstaklega í tilefni af slíkum eigendaskiptum. Þess eru einnig dæmi að slík merki beri mynd fyrri eiganda, og svo sem ex libris dr. Jóns Þorkelssonar (1859-1924), þjóðskjalavarðar, en Háskólabókasafnið í Osló keypti bókasafn hans eftir andlát hans. Listamaðurinn Gerhard Munthe teiknaði flúraðan ramma utan um ljósmynd af Jóni og er nafn háskólasafnsins að ofanverðu, „Universitetsbiblioteket – Oslo“, en undir myndinni stendur „Úr bókum Jóns Þorkelssonar“. Sömu sögu er að segja um bókamerki Magnúsar Helgasonar, skólastjóra, er gaf Háskóla Íslands bókasafn sitt, en það var gert eftir andlát hans og sett á bækurnar. Vegna sérkenna sinna og fagurfræðilegs gildis hafa ex libris merki löngum þótt eftirsóknarverð til söfnunar og víðs vegar um heiminn eru rekin félög þeirra sem sérhæfa sig í bókamerkjasöfnun. Var fyrsta slíka félagið stofnað í Lundúnum árið 1891, The Ex Libris Society, og fimm árum síðar fylgdu Bandaríkjamenn í kjölfarið. Eru hin fágætari ex libris merki afar verðmæt og eftirsótt. Þau eru kannski á meðal smæstu listaverka en jafnframt hinna dýrustu – altént miðað við stærð. Athugasemd höfundar: Föðurbróðir minn heitinn, Snær Jóhannesson, safnaði bókamerkjum og átti ágætt safn slíkra merkja. Fyrir hans áeggjan kynnti ég mér sögu þessara litlu listaverka bókheimsins og skrifaði greinarkornið hér að ofan.

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.