Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Blaðsíða 134
SÖGUR AF BEINAGRINDUM 133
samhengi sem hér um ræðir, er dulin áhrif mismunandi áhættu breyti-
leika (hidden heterogeneity in risks). Þetta hugtak snýr að því að einstakl-
ingunum sem mynda safn hefur verið mismunandi hætt við sjúkdómum
og dauða. Munurinn getur stjórnast af ýmsum þáttum, erfðum, félags-
legum aðstæðum eða tímabundnum breytingum (það gæti hafa geisað
plága í eitt ár af þeim 100 sem grafreitur var í notkun). Þetta þýðir
að ekki er hægt að nýta söfn til að meta nýgengi sjúkdóma þar sem
ómögulegt er að vita hversu margir voru í hættu á að veikjast eða deyja
og hversu lengi sú hætta varði.24 Tökum sem dæmi þrjá mismunandi
hópa og einn sjúkdóm sem greinanlegur er í beinum. Fyrsti hópurinn
lendir aldrei í hættu á að fá sjúkdóminn, enginn veikist og því ber
enginn merki um hann. Annar hópurinn lendir í hættu en er með
ónæmi á háu stigi, einhverjir veikjast og bera sjúkdóminn í nógu langan
tíma til að hann hafi áhrif á bein. Sumir deyja úr honum en aðrir ná
sér en bera þó merki sjúkdómsins og deyja seinna af öðrum ástæðum.
Þriðji hópurinn hefur ekkert ónæmi fyrir sjúkdómnum, margir veikjast
og deyja mjög f ljótlega þannig að þeir eru ekki veikir nógu lengi til
þess að sjúkdómurinn hafi áhrif á bein. Í þessu einfaldaða dæmi er
ljóst að einungis einn hópur ber merki sjúkdómsins, annar hópurinn í
upptalningunni hér að framan, og engin leið er að greina í sundur fyrsta
hópinn, þá sem veiktust aldrei, og þann þriðja, þá sem veiktust en dóu
f ljót lega. Hvorugur hópurinn ber merki um sjúkdóminn.25 Til að f lækja
málin enn frekar þurfa þessir mismunandi hópar ekki endilega að vera í
aðskildum söfnum, vel getur verið að þeir hafi verið uppi á sama stað og
á sama tíma og því verið grafnir í sama grafreit.
Í mörgum tilfellum er ekki hægt að leysa þau vandamál sem Wood
og félagar benda á, en markmiðið með þessum athugasemdum þeirra
er ekki að sýna fram á að lýðfræði- eða faraldsfræðilegar athuganir á
fornum beinasöfnun séu ómögulegar. Frekar að þetta séu þættir sem
mikilvægt er að hafa í huga til að greina hvað það er sem slík söfn segja
og það sem mikilvægara er, segja ekki. Nú orðið er þessi grein talin eiga
mikinn þátt í að þróa þá stefnu sem fornbeinafræði hefur tekið síðasta
rúma áratug.26
Ef við snúum okkur aftur að íslensku beinagrindunum og byrjum
á að bera saman niðurstöður úr Reykjavík og frá Hofstöðum sést að
í 18.-19. aldar safninu úr Reykjavík voru níu tilfelli af sýkingum,
24% af 37 einstaklingum, þar af fjögur tilfelli (11%) af greinanlegum
smitsjúkdómum. Þrjú tilfelli voru af sýkingum í miðaldasafninu frá
Hofstöðum, 6% af 51, en ekkert tilfelli þar sem hægt var að greina