Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Blaðsíða 185
184 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
með áþekku lagi og r-rúnin á Skálholtssteininum, og er því líklegt að
ristan sé ekki öllu eldri en frá 16. öld.
Tvær rúnir eru ristar í steininn fyrir ofan nafnið. Eftir því sem best
verður séð er fyrri rúnin h, en hin síðari u eða v. Ekki er augljóst hvað
þær eiga að merkja, en ef til vill er líklegast að þær tengist ristunni með
nafni Hallvarðs og standi þá fyrir Hall- og -varður. Rispur eða strik
eru í steininn aftan við nafnið en ekki verður lesin merking úr þeim.
Ekkert er letrað á steinana í kring. Hafi áletrunin verið lengri, eins og
orðskiptastrikin benda til, hefur steinninn legið í annarri hleðslu þegar
ristan var gerð. Þá hafi eitthvað annað, eitt orð eða f leiri verið letruð á
steininn við hlið hans. Ekki hefði verið þörf á orðabilstákni ef ekkert
annað orð hefði verið á undan.
Nú verður illa ráðið í hvað þarna kynni að hafa staðið og verður ekki
um það sagt nema því aðeins að steinn með fyrri hluta áletrunarinnar
kynni að koma í ljós einhvern daginn. Miðað við innihald í sambæri-
legum áletrunum gæti hæglega hafa staðið eitthvað þessu líkt: HÉR
KOM HALLVARÐUR eða HÉR VAR HALLVARÐUR. Mannanöfn
eru algeng í veggjakroti, fyrr og síðar. Í Paradísarhelli undir Eyjafjöllum,
milli Seljalands og Fitjar, eru fjölmargar ristur og eru langf lestar þeirra
mannanöfn, þar standa líka orðin „hér hefur komið Salomon“ og „hér
kom síra Steinmóður“3.
Líkur eru á að löngu göngin hafi lengi staðið í svipaðri mynd. Þar
eð ristan virðist upphaf lega hafa verið lengri má ætla að hún hafi verið
gerð þegar hleðslan var öðruvísi eða steinninn lá annars staðar. Til eru
nokkrar úttektir á staðarhúsum frá því seint á 17. öld og fram eftir hinni
18. Árið 1674 er talað um að göngin séu „nýlega uppgjörð“4. Hins vegar
er sagt árið 1698 að þau séu „nýbyggð“, sem hlýtur að eiga við endur-
bygg ingu5. Ekki verður séð að síðari úttektir nefni endur byggingar. Það
var ekki tilgangur þessara úttekta að vera annáll um breyt wingar á hús-
um, og ljóst að margar breytingar á byggingum koma þar hvergi við
sögu. En steinninn gæti hafa verið kominn á þann stað sem hann nú er
fyrir 1700.
Hver var Hallvarður?
Nafnið Hallvarður er ekki mjög algengt. Í fyrsta manntali sem tekið var
á Íslandi, árið 1703, eru taldir 30 menn sem bera það.6
Til eru skrár um skólapilta í Skálholti, svonefndar skólaraðir, sem
prent aðar hafa verið.7 Í þeim skrám er engan Hallvarð að finna, en hins
vegar ná skrárnar ekki til alls þess tíma er skólinn var starfræktur.