Dagblaðið Vísir - DV - 23.12.2009, Blaðsíða 30
HÁTÍÐARBLÆR Í
FÁBREYTILEIKANUM
30 MIÐVIKUDAGUR 23. desember 2009 JÓLABLAÐ
„Ef við ætluðum að
fara til útlanda, sem
við gerðum svolítið, þá
ætluðum við að eiga
fyrir því, ekki taka lán.
Kristín Margrét Sveinbjörnsdóttir er fædd árið 1921 og vann fyrir sér frá fermingu. Hún man vel eftir
kreppunni miklu og ástandið nú er ekkert í samanburði við hana. Hún hefur alla tíð safnað sér fyrir hlutun-
um áður en hún kaupir þá. Pabbi hennar smíðaði lítið jólatré og síðan var farið í kirkju á aðfangadagskvöld.
Kristín Margrét Sveinbjörnsdóttir
er fædd 4. mars árið 1921 í Stykkis-
hólmi og er því 88 ára gömul. Hún
bjó í Hólminum fyrstu árin en flutti
suður til Reykjavíkur eftir fermingu,
þar sem hún hefur búið síðan.
Hvernig var hefðbundið jólahald
á þínu heimili? „Það var afskaplega
fábreytt, segjum við núna. Það er
langt á milli okkar barnanna, syst-
ir mín var 10 árum eldri, svo var ég
eins og einbirni. En mér finnst að
jólin hafi verið hátíðleg. Það var allt
gert hreint sem hægt var að gera. Ég
átti heima í fallegu litlu timburhúsi.
Faðir minn smíðaði jólatré og á það
voru sett kerti, en ekki mikið skreytt.
Það voru músastigar og eitthvað svo-
leiðis. Það var grænt að lit og svo
voru settir á það jólapokar og það var
nú mesta eftirvæntingin hvað var í
þeim,“ segir Kristín hugsi.
„Það var aldrei dansað í kringum
jólatré á aðfangadagskvöld, það var
farið í kirkju. Það var stutt að fara og
það var nú svo skrítið að við fórum
yfirleitt í kirkju, en ég man aldrei eft-
ir vondu veðri á aðfangadagskvöldi.
Ekki voru útiljósin eða nein birta
nema tunglið, ef það var. En það
var einhver hátíðarblær innra með
manni, eitthvað sem kom í fábreyti-
leikanum.“
Kreppan hörð
Þegar Kristín var að alast upp voru
jólagjafir með talsvert öðru sniði en
nú þekkist. Hún man eftir tveimur
jólagjöfum sem hún fékk í æsku og
flestum þættu þær lítilfjörlegar nú
á tímum. „Ég á tvær litlar bækur frá
foreldrum mínum, önnur er Nýja
testamentið og hin er sálmabók. Það
eru þær jólagjafir sem ég man eft-
ir innan heimilisins,“ segir Kristín.
Hún man vel eftir kreppunni miklu
á þriðja og fjórða áratugnum. „Það
breyttist margt þegar kreppan kom,
þá var ég 10 ára. Ég man að það var
haldinn borgarafundur, ég fór nú
ekki þangað en foreldrar mínir fóru.
Það sem rætt var á fundinum var að
tekið yrði land til ræktunar, svo allir
gætu átt kindur eða eina kú eða eitt-
hvað svoleiðis og heyjað fyrir því.
Þeir sem ættu bát reru til sjós. Faðir
minn átti bát og ákveðið var að þeir
gæfu einstæðingum og fátækum afla
svo þeir gætu borðað. Þessu man ég
svo rækilega eftir.“
Íslendingar tala vart um annað
núna en kreppuna sem geisar nú.
Kristín er spurð hvort hún finni fyr-
ir kreppunni núna. „Kreppu? Hvar
sjáið það hana? Mér heyrist á unga
fólkinu sem kemur til mín að það
sé allt hægt að kaupa og verslanir
opnar fram eftir öllum kvöldum og
allt til. Ég á tvö börn hérna á Íslandi,
ég heyri ekki að þau kvarti undan
kreppu, það kemur þá ekki fyrir mín
eyru eða ég vil bara ekki hlusta á
það,“ segir hún sposk á svipinn.
Safnar fyrir hlutunum
Kristín er ekki hrifin af þeirri þróun
sem orðið hefur, að gefa sífellt dýr-
ari gjafir með hverju árinu. Hún hef-
ur lifað lífi sínu samkvæmt öðrum
gildum. „Þetta á ekki að eiga sér stað.
Fólk á að vinna fyrir sínum laun-
um þegar það er búið að læra. Núna
þurfa allir að læra en ég lærði ekki
neitt. Mitt verk var eftir fermingu
að fara að vinna fyrir mér og mér
var gert það skiljanlegt, þá var móð-
ir mín ekkja með lítinn son. Hingað
suður kom ég 1935 til að vinna fyrir
mér og hér hef ég verið síðan.“
Hún hefur þá væntanlega ekki
steypt sér í skuldir til að kaupa lífs-
gæði? „Nei, við maðurinn minn
stunduðum aldrei svona vitleysu. Ef
við ætluðum að fara til útlanda, sem
við gerðum svolítið, þá ætluðum við
að eiga fyrir því, ekki taka lán.“
Kristín er spurð að lokum hvort
hún eigi heilræði handa þeim sem
takast á við kreppuna. Eftir nokkurn
umhugsunarfrest svarar hún: „Okkar
mottó, hjónanna, var að fara aldrei,
hvorki í húsakaup né annað, nema
sæi fyrir endann á því og geta stað-
ið keikur eftir. Það er eins með jólin
núna. Það er gott ef fólki líður vel,
en öllu má ofgera og við erum kom-
in langt út fyrir það sem eðlilegt er,
langt út fyrir það. Finnst mér. Mín
börn höfðu ekki af þessu að segja og
ég held að þau hafi haft þá hugsun að
fara ekki lengra en það að eiga fyrir
hlutunum.“ valgeir@dv.is
Kristín Margrét Sveinbjörnsdóttir „Kreppu? Hvar sjáið það hana? Mér heyrist á unga fólkinu sem kemur til mín að það sé allt
hægt að kaupa og verslanir opnar fram eftir öllum kvöldum og allt til.“
Á góðri stund Kristín og fjölskylda hennar á mynd sem var tekin fyrir mörgum
árum.
Guðrún Rósa Ragnarsdóttir er 78 ára gömul og hefur alltaf búið í Reykjavík. Í æsku fékk hún dúkku í
jólagjöf, en bróðir hennar fékk dótabíl. Hún kennir mikið í brjósti um þá sem eru að missa húsin sín í
kreppunni, en hefur sjálf sýnt aðhaldssemi. Fólk er glaðara um jólin nú en það var í gamla daga.
Guðrún Rósa Ragnarsdóttir er fædd
árið 1931 og hefur búið alla sína tíð
í Reykjavík. Hún hefur orðið vitni
að miklum breytingum á jólahald-
inu í gegnum tíðina, en segist alltaf
muna eftir því að miðborg Reykja-
víkur hafi verið fagurlega skreytt
um jólin. Þó ekki eins og nú. „Ég
man að í Aðalstrætinu voru falleg-
ar ljósaseríur og svo var stór stjarna
í miðjunni. En skrautið hefur auk-
ist mjög mikið, miðað við það sem
var þá.“
Hún segir jólahaldið á heimil-
inu hafa þó verið fábreytilegt bor-
ið saman við það sem þekkist nú.
„Það var ekkert grenitré eins og nú.
Pabbi smíðaði jólatré og svo var
alltaf látið eitthvert skraut á tréð, en
það var ósköp lítið. Það var ekki fyrr
en ég var orðin 9 ára, þá fór þetta
að breytast og þeir fóru að skreyta
meira inni. Þá kom meira skraut í
búðirnar.“
Dúkka og dótabíll
En voru gefnar jólagjafir í þinni
æsku? „Jú, það voru nú einhverjar
gjafir. Ég fékk dúkku og bróðir minn
fékk lítinn bíl. En einhvern veginn
fannst mér alltaf vera eins og það
væru hálfgerð vandræði og fátækt
þegar fólk var að gefa gjafir um jól-
in.“
Guðrún Rósa segir jólahald-
ið hafa verið með hefðbundnum
hætti. „Við borðuðum hangikjöt á
aðfangadagskvöld og svo eitthvert
nýtt kjöt daginn eftir.“
En hvað finnst Guðrúnu um
hvernig jólahaldið hefur breyst og
þróast? „Það er miklu meira um
allt og það er eiginlega allt öðruvísi
núna. Mér finnst fólkið vera öðru-
vísi núna, það eru allir einhvern
veginn glaðari. Þessi þróun er til
betri vegar.“
Jólagjafir úr hófi
Talið berst að kreppunni og seg-
ist Guðrún hafa mikla samúð með
fólki sem á í erfiðleikum með að
borga af íbúðarhúsnæði sínu.
„Aumingja fólkið sem er að tapa
íbúðum sínum núna, ég hugsa hvað
það er hræðilegt. Það er agalegt,“
segir hún áhyggjufull á svip.
Guðrún segist þó sjálf hafa sýnt
aðhaldssemi í jólagjöfum í gegn-
um tíðina. „Það gefa margir dýrar
jólagjafir og það er að mörgu leyti
farið úr hófi hjá fólki. Í dag hafa
engir orðið efni á því að gefa neitt
fokdýrt, það eru svo mikil vand-
ræði á öllum sviðum síðan þetta
kom upp og fólk þarf að sýna meira
aðhald. Ég hef ekki sjálf tekið þátt í
þeirri þróun að gefa alltaf dýrari og
dýrari gjafir.“
valgeir@dv.is
„Ég man að í Aðal-
strætinu voru fallegar
ljósaseríur og svo var
stór stjarna í miðjunni.
En skrautið hefur auk-
ist mjög mikið, miðað
við það sem var þá.
AÐALSTRÆTIÐ FALLEGA SKREYTT
Guðrún Rósa Ragnarsdóttir
„Jú, það voru nú einhverjar
gjafir. Ég fékk dúkku og bróðir
minn fékk lítinn bíl. En einhvern
veginn fannst mér alltaf vera
eins og það væru hálfgerð
vandræði og fátækt þegar fólk
var að gefa gjafir um jólin.“