Dagblaðið Vísir - DV - 23.12.2009, Side 33
JÓLABLAÐ 23. desember 2009 MIÐVIKUDAGUR 33
Skilur reiðina eftir hrunið
Jón Aðalsteinn segist skilja reiðina
sem blundi í mönnum eftir hrunið.
Mörgum finnist sem á þeim hafi ver-
ið brotið.
„Margir þeir sem töldu sig vera
á sléttum sjó standa nú frammi fyr-
ir gjörbreyttum forsendum. Fótun-
um hefur verið kippt undan sumum
þeim sem áður gátu staðið við sín-
ar skuldbingingar og allt stritið sem
þeir hafa á sig lagt hefur orðið til ein-
skis. Reiðin er vond og verst þeim
sem hana bera í brjósti sér. Hún er
tortímandi afl sem verður að veita í
jákvæðan farveg ef ekki á illa að fara
og í þeim efnum er samstaðan mik-
ils virði. Fólki líður betur ef það getur
rætt vandamálin við aðra í svipaðri
stöðu,“ segir hann og líkir þessu við
AA-fund þar sem menn koma sam-
an til að og deila vandamálum sín-
um hver með öðrum. „Ef fólk finnur
að það stendur ekki eitt verður biðin
eftir lausnum léttari.“
Gengur hægt að finna lausnir
Þrátt fyrir allt er Jón Aðalsteinn
vígslubiskup bjartsýnn og viss um að
landinn finni lausn á efnahagsvand-
anum með einhverjum hætti. „Ég
vildi samt sjá meiri kröftum beint að
grunnstoðum samfélagsins eins og
fjölskyldum og heimilum og ég skil
ekki af hverju það gengur svona hægt
að finna lausnir. Að mínu mati hefur
farið of mikill kraftur í að leysa stóru
málin. Þótt bankastofnanir og fyrir-
tæki séu vissulega mikilvæg má hitt
ekki falla í skuggann. Skilaboðin sem
við höfum fengið eru þau að fólk-
ið verði sjálft að ráða fram úr sínum
vanda og standa við skuldbinding-
ar sínar á meðan við fylgjumst með
milljarða afskriftum stórfyrirtækja
og skiljanlega er fólk furðu slegið og
reitt yfir því ráðslagi. Afskriftir verða
að eiga sér stað á vettvangi þessara
grunneininga líka. Við getum ekki
ætlast til þess að fjölskyldurnar beri
þessar byrðar einar og kasti þeim
jafnvel á herðar barna sinna,“ segir
hann og bætir við að við þurfum á
samstöðu að halda.
„Þau okkar sem eru sæmilega
stödd fjárhagslega þurfa, með ein-
hverjum hætti, að taka á sig þær
byrðar sem hljótast af því að hjálpa
þeim sem eru í neyð.“
Hann segist vonast til þess að
kreppan geti haft einhver jákvæð
áhrif enda hafi verið haft eftir mikl-
um athafnamanni í kreppunni 1930
að á krepputímum séu stærstu tæki-
færin. „Það held ég að sé alveg satt,
sama hvort það er í viðskiptalífinu
eða lífinu sjálfu. Kreppa krefst end-
urmats á svo mörgu. Á þessum árum
þegar allt var í bullandi gengi héld-
um við að slóðin lægi bara upp á við
í átt að sæluríki auðæfanna og við
urðum hirðulaus um þau grunngildi
sem skipta mestu máli þegar allt
kemur til alls.“
Trúin er feimnismál
Jón segir marga hafa leitað til kirkj-
unnar í vandræðum sínum og að
álagið á prestum sé mikið. „Við þess-
ar aðstæður sem hér ríkja hefur starf-
ið í kirkjunni eflst af hreinni nauð-
syn. Trúarþörfin blundar í fólki, hvað
svo sem skoðanakannanir kunna að
segja. Kirkjan hefur hins vegar orð-
ið fyrir barðinu á þeirri vantrú sem
fólk hefur nú á stofnunum samfé-
lagsins en í mínum huga er kirkjan
meira en stofnun. Kirkjan er fólk-
ið í landinu sem vill hafa Jesú Krist
að leiðtoga og lifa eftir hans góða
vilja. Það fólk lætur til sín taka þeg-
ar það finnur að þess er þörf og það
kemur gleggst fram í litlum söfnuð-
um. Í sveitinni þykir sjálfsögð kristin
dyggð að hlaupa til ef einhver þarfn-
ast hjápar og ég er viss um að það
sama á sér stað í stærri söfnuðunum
líka. Það hefur verið mikið vegið að
kirkjunni og sumir tala jafnvel um
að hún sé deyjandi stofnun, en starf-
ið sem unnið er á hennar vegum er
miklu meira en var þegar ég byrjaði
minn prestskap árið 1974. Því er ekki
saman að líkja,“ segir hann en bætir
við að Íslendingar líti gjarnan á trúna
sem sitt einkamál og hún sé þeim oft
nokkurt feimnismál.
„Eftir kynni mín af öðrum þjóð-
um sé ég hvað við Íslendingar erum
inni í okkur hvað trú varðar. Við vilj-
um hafa trúna fyrir okkur. Vegna að-
stæðna var heimilisguðrækni mjög
rík hér á landi áður fyrr og er enn við
líði sem betur fer. Það er ánægjulegt
til þess að vita að meirihluti foreldra
skuli kenna börnum sínum bænir
við rúmstokkinn. Slík iðja er grund-
völlur að heilbrigðu trúarlífi og er
eitt af því sem mér er hvað dýrmæt-
ast þegar ég hugsa til minnar æsku.“
Mikið álag á prestum
Jólin eru einn aðal álagstími presta.
Messur eru margar og því tekur
ræðugerð mikinn tíma og fleiri þarfn-
ast aðstoðar en endranær. „Álagið
er mikið og starfið fjölbreytt og það
getur reynt á að sinna þessum ólíku
þáttum, til dæmis að hjálpa þeim
sem syrgja á sama tíma og undir-
búningurinn fyrir fagnarðarhátíðna
miklu stendur yfir og allir eru glað-
ir og reifir. Það reyna allir að gera sitt
besta. Ég á starfsfélaga sem kvíða því
að standa frammi fyrir fólki um jólin
sem veit ekki hvert það á að snúa sér
í vandræðum sínum. Blessuð börn-
in geta verið miskunnarlaus og gera
þá kröfu á foreldra sína að geta verið
í takti við aðra í samfélaginu. Við vilj-
um ekki vera minni en náunginn og
því varð þetta mikla efnalega kapp-
hlaup. Þegar svo kreppir að verður
mörgum ómögulegt að halda í við
aðra og það veldur mörgum angri.“
Ljós í myrkrinu
Jón Aðalsteinn segist alltaf hafa
verið mikið jólabarn og nýti síð-
ustu dagana fyrir jólin til að ljúka
við ræðurnar svo hann geti átt að-
fangadaginn með fjölskyldunni.
Hann mun taka að sér hátíðar-
messurnnar í Hóladómkirkju um
jólin.
„Sóknarpresturinn er með sjö
kirkjur og þarf að koma víða við og
ég hef gaman af að fá að taka þátt
í þessu,“ segir Hólabiskup en hann
mun messa klukkan 23 á aðfanga-
dagskvöld og á jóladag klukkan 14.
Hann segir jólahátíðina erfiðan
tíma þeim sem syrgja.
„Jólin eru hátíð fjölskyldunnar
og þegar skarð hefur verið höggvið
í hana verður það stærst og dýpst
á jólunum þegar björtustu og feg-
urstu minningarnar sækja á hug-
ann. En jólin eru þó fagnaðarhátíð
um fram allt annað, líka þeim sem
syrgja, því þau boða hin miklu tíð-
indi að ljósið skín í myrkrinu, þrátt
fyrir allt. Í því ljósi er gott að ganga
og í skini þess verður söknuðurinn
léttbærari en ella,“ segir hann og
bætir við að hann trúi því að nýja
árið muni bera í skauti sér bjartari
tíma fyrir íslenska þjóð.
„Ég hef fulla trú á því að við
komumst út úr þessari kreppu fyrr
og betur en á horfðist um tíma. En
til þess að svo megi verða þurfum
við að halda rétt á spilunum og
virkja samtakamáttinn og kraftinn
sem í okkur býr. Umfram allt verð-
um við að taka höndum saman um
það að koma í veg fyrir að nokkur
þurfi að líða nauð í okkar gjöfula
og góða landi. Kærleiksboðskapur
jólanna ætti að vera okkur vegvísir
á þeirri braut.“
indiana@dv.is
Jólin eru fagnaðarhátíð,
LÍKA ÞEIM SEM SYRGJA Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á
Hólum, var í 20 ár
sendiráðsprestur
í Lundúnum þar
sem hann hjálpaði
veikum Íslendingum
og aðstandendum
þeirra. Jón segir
starfið hafa verið erf-
itt en lærdómsríkt.
Þau hjónin þekkja
sorgina af eigin raun
en þau misstu dóttur
sína úr krabbameini
árið 2004. Hóla-
biskup skilur reiði
landsmanna vegna
efnahagshrunsins
og segir grunnstoð-
ir samfélagsins
ekki mega falla í
skuggann af banka-
stofnunum og fyrir-
tækjum.
„Ég hef alltaf tekið það mjög nærri mér þeg-
ar börn eiga í hlut, það er erfitt að horfa á lítið
barn og vita innst inni að vonin um bata er lítil.
Ég hef hryggur fylgst með sumum þeirra koma
aftur og aftur til meðferðar en hraka samt frek-
ar en hitt. Og svo eru þau rifin frá foreldrum
sínum eftir að hafa gróið föst við þau.“
Erfiður tími fyrir marga Biskupinn á Hólum
segir jólin hátíð fjölskyldunnar og því verður
skarðið sem höggvið hefur í hana stærst og dýpst
á jólum þegar björtustu og fegurstu minningarnar
sækja á hugann. Hann segir jólin samt umfram allt
fagnaðarhátíð því þau boði þau tíðindi að þrátt
fyrir allt skín ljósið í myrkrinu.
„Eftir kynni mín af öðrum þjóðum sé ég hvað
við Íslendingar erum inni í okkur hvað trú
varðar. Við viljum hafa trúna fyrir okkur.“
Hólabiskup Jóni Aðalsteini líkar vel á Hólum enda sveitastrákur að upplagi. Hann
bjó þó 20 ár í London áður en hann settist að á Hólum og fluttist því frá einum
höfuðstað til annars.