Dagblaðið Vísir - DV - 23.02.2011, Page 16
16 | Erlent 23. febrúar 2011 Miðvikudagur
Skálmöld ríkir í Líbíu þar sem mót-
mælendur virðast vera að ná yfir-
höndinni. Leiðtogi Líbíu, Muammar
al-Gaddafi, ætlar samt ekki að gef-
ast upp og hefur skipað öryggissveit-
um sínum að skjóta á mótmælend-
ur. Hafa jafnvel herþotur flogið yfir
Græna torgið í miðborg Tripólí, höf-
uðborg Líbíu, og varpað sprengjum
á mótmælendur. Tveir orrustuþotu-
flugmenn ákváðu á mánudag að ger-
ast liðhlaupar, þeir neituðu fyrir-
mælum og vildu ekki hefja skothríð
að eigin þjóð. Lentu þeir flugvélum
sínum á Möltu og eru þar enn.
Fjölmargir sendifulltrúar Líbíu á
erlendri grund hafa sagt upp störf-
um þar sem þeir neita að vinna fyr-
ir ríkisstjórn Gaddafis, þar á meðal
er sendiherra Líbíu hjá Sameinuðu
þjóðunum. Dómsmálaráðherra Líb-
íu, Mustafa Abdel Jalil, sagði einnig
af sér vegna ofbeldisverka hersins.
Í gær neitaði Gaddafi að hann væri
þegar flúinn land, en sögur höfðu
verið á kreiki um að hann væri flúinn
til Venesúela. Staða Gaddafis er þó
síst traust um þessar mundir.
Riðar til falls
Fáir hefðu trúað því fyrir örfáum vik-
um að Gaddafi ætti eftir að eiga á
hættu að hrökklast úr embætti leið-
toga. Gaddafi hefur verið einráður
í Líbíu síðan hann hrifsaði völdin í
valdaráni árið 1969, þegar honum
tókst að ýta Idris konungi til hliðar.
Gaddafi, sem þá var aðeins 27 ára
gamall, lýsti sjálfum sér sem „Che
Guevara Araba.“ Draumur hans var
að stofna víðfeðmt ríki Araba, og hef-
ur hann oftar en einu sinni reynt að
semja við nágranna sína um að sam-
einast í öflugt ríki. Lengst komust
þessar viðræður undir lok 8. áratugar
síðustu aldar, þegar til stóð að Líbía,
Egyptaland og Sýrland myndu sam-
einast. Að lokum fóru þær áætlan-
ir út um þúfur, þar sem Gaddafi gat
ekki sætt sig við friðarsamning Eg-
ypta við Ísraela sem þáverandi for-
seti Egypta, Abdel Nasser, stóð fyrir.
Bróðurlegi leiðtoginn
Í kjölfar valdaránsins stofnaði
Gaddafi það sem hét að nafninu til
„íslamskt lýðveldi.“ Gaddafi tók sér
titil forsætisráðherra en afsalaði sér
þeim titli árið 1972. Hann vill frekar
láta kalla sig hinn „bróðurlega leið-
toga og vegvísi byltingarinnar.“ Erfitt
er að henda reiður á þá stjórnmála-
stefnu sem Gaddafi hefur fylgt, þó
einfaldast sé að útskýra hana sem
miðstýrt einræði. Fyrirtæki í Líbíu
geta verið í einkaeign, en öll stærri
fyrirtæki, og þar með talin olíufyr-
irtækin, eru í eigu ríkisins og getur
Gaddafi í raun hlutast til með þau að
vild.
Gaddafi hefur ætíð lagt mikla
áherslu á jafnrétti og jafna skipt-
ingu auðs í orði, en lítið fer fyrir
þeirri speki á borði. Í Líbíu er mik-
il misskipting þrátt fyrir að olíuauð-
ur landsins sé einn sá mesti sem um
getur. Atvinnuleysi mælist þar yfir 20
prósentum og ríkir þar oft og tíðum
vöruskortur.
Fjölskyldan stendur saman
Stjórnmálaskýrendur eru á einu máli
um að ómögulegt sé að sjá fyrir hvað
framtíðin beri í skauti sér í Líbíu, fari
svo að stjórn Gaddafis falli. Líklegasti
arftaki Gaddafis var talinn vera sonur
hans, Saif al-Islam, sem flutti meðal
annars sjónvarpsávarp í ríkissjón-
varpi Líbíu á mánudagskvöld. Sagði
hann þar að stjórnvöld væru að berj-
ast við hryðjuverkaöfl á götum úti og
að stjórnvöld ætluðu sér að „berjast
til síðasta manns, síðustu konu og
síðustu byssukúlu.“
Ávarpið kom talsvert á óvart, sé
litið til ferils Saifs, en erlendir stjórn-
málaskýrendur höfðu vonast til þess
að hann væri maðurinn sem kæmi til
með að leiða Líbíu í átt til lýðræðis
þegar faðir hans væri horfinn á brott.
Einn þeirra sem hafði bundið miklar
vonir við Saif er David Held, prófess-
or við London School of Economics
og einn virtasti fræðimaður nútím-
ans í alþjóðasamskiptum. Held var
leiðbeinandi Saifs þegar hann stund-
aði nám við skólann, en hann lauk
þaðan doktorsgráðu í alþjóðastjórn-
málum árið 2009. Eftir að Saif hafði
skilað inn doktorsverkefni sínu var
honum boðið að kynna verkefni sitt
á fjölmennum fundi, sem hann og
gerði. Það var David Held sem kynnti
Saif á svið með orðunum „hér kynni
ég mann sem ég kalla stoltur vin
minn. Maður sem kemur til með að
koma með nýjar áherslur við að leysa
deilumál friðsamlega.“
Miðað við sjónvarpsávarp Saifs
frá síðasta mánudegi er friður hon-
um ekki ofarlega í huga.
Þjóðarleiðtogar fordæma
ofbeldið
Mikill þrýstingur er á Gaddafi frá al-
þjóðasamfélaginu um að láta af of-
beldinu gagnvart mótmælendum.
Mannréttindasamtök á staðnum full-
yrtu í samtali við fréttastöðina al-Jaz-
eera að um 400 manns hefðu þegar
fallið fyrir hendi öryggissveita og her-
manna. Á þriðjudag ræddi Gaddafi
lengi við Ban ki-Moon, aðalritara Sam-
einuðu þjóðanna. Moon sagði Gaddafi
að hann þyrfti að láta af ofbeldinu taf-
arlaust. Öryggisráð Sameinuðu þjóð-
anna ætlar að funda um ástandið í
Líbíu, en fundurinn er haldinn að
undirlagi Ibrahim al-Dabashi, sem
sagði af sér á mánudag sem sendi-
herra Líbíu hjá SÞ. Dabashi fullyrti að
alþjóðasamfélagið yrði að bregðast við
ástandinu, að öðrum kosti væri bráð
hætta á að þjóðarmorð yrði framið fyr-
ir framan nefið á heiminum.
Hillary Clinton, utanríkisráð-
herra Bandaríkjanna, tjáði sig einn-
ig um ástandið í Líbíu. Sagði hún að
Gaddafi yrði að virða mannréttindi
og láta af öllu ofbeldi þegar í stað.
„Við tökum undir með alþjóðasamfé-
laginu og fordæmum ofbeldið í Líb-
íu harðlega. Nú er tími til kominn að
stöðva þessar tilgangslausu blóðsút-
hellingar.“
Björn Teitsson
blaðamaður skrifar bjorn@dv.is
GADDAFI
RIÐAR
TIL FALLS
„ ...hefur
verið
einráður í Líbíu
síðan hann
hrifsaði völdin í
valdaráni 1969.
n Skálmöld ríkir í Líbíu þar sem mótmælendur eiga í blóðugum átökum við her-
inn n Gaddafi ætlar ekki að gefast upp og neitar því að hann sé flúinn land n Al-
þjóðasamfélagið hefur fordæmt ofbeldið og tekur undir málstað lýðræðissinna
Líbísk herþota á Möltu Tveir orrustuþotuflugmenn gerðust liðhlaupar og neituðu að
skjóta á eigin þjóð. Þeir lentu flugvélum sínum, af gerðinni Mirage F-1, á Möltu.
Miðborg hafnarborgarinnar Tobruk
Mannfjöldi hefur safnast saman í borgum
Líbíu undanfarna daga.
Saif al-Islam Sonur Gaddafis ætlar ekki
að gefast upp og styður föður sinn.
„Ég er ekki farinn.“ Gaddafi var í dyragætt bifreiðar með
regnhlíf í hönd þegar hann ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi.