19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 10

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 10
10 Eftir að Ragna tók við embætti, eða haustið 2009, var nafni ráðuneytisins breytt úr dóms- og kirkjumálaráðuneyti í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Við það færðust málaflokkar frá félagsmálaráðuneyti til hennar eins og mál er tengjast mansali. Stuttu síðar komst upp um stórt mansalsmál á Íslandi þegar fimm Litháar brutu gegn 19 ára litháískri stúlku er þeir fluttu hana nauðuga hingað til lands. Mennirnir fimm voru dæmdir fyrir mansal í mars sl. en það er fyrsti dómurinn sem kveðinn er upp hér á landi í þessum málaflokki. Umræða um mansal hefur aukist mikið í kjölfarið og sú staðreynd er ógnvekjandi að svo hrottaleg glæpastarfsemi fari fram hér á landi. Annað mál sem einnig er orðið frægt varðar Catalinu Mikue Ncogo en hún er sögð tengjast mansali og vændi. Ragna var spurð hvort breytingar hefðu orðið á vinnubrögðum eftir að þessi málaflokkur færðist yfir í dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. „Þetta stóra mál sem kom upp stuttu eftir breytingarnar hefur eflaust fremur vakið athygli á málaflokknum. Mansal er hluti skipulagðrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Okkur finnst oft slík alþjóðleg starfsemi vera fjarlæg. Í huga almennra borgara eru augljósustu dæmin kannski frekar tengd fíkniefnainnflutningi. Núna þurfum við að horfast í augu við að Ísland er ekki undanskilið mansali frekar en nokkurt annað ríki. Það er ákaflega mikilvægt að lögregla sé í stakk búin til að takast á við þessi stóru mál og komi auga á þau. Fórnarlamb mansals er kannski ekki reiðubúið til að vinna með lögreglu, treystir engum, getur ekki sagt sannleikann og er jafnvel í slæmu andlegu ástandi,“ segir Ragna. Hún hefur mikinn áhuga á þessum málaflokki og telur þróunina ógnvænlega. „Við settum í gang neyðarteymi því ég tel hættulegt ef einhverjir líta svo á að aðeins ein stofnun hafi með þetta að gera. Mansalsmál eru þannig að taka þarf á þeim frá mörgum hliðum. Baráttan gegn þessari vá á að vera á höndum margra stofnana. Allir þurfa að vera reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum og samvinnan þarf að vera góð.“ Grunur um mansal Það er erfitt að sanna mansal og ekki er vitað hversu mörg fórnarlömb fara um Keflavíkurflugvöll. Lögreglan hefur þó nokkuð oft stöðvað fólk á leið til Bandaríkjanna með fölsuð vegabréf og hefur leikið grunur á mansali í mörgum þeirra mála. Ragna segir að við séum tilneydd að vera vakandi gegn þessum glæpahópum. „Við erum að vakna til vitundar. Þótt það hafi verið bent á þetta í mörg ár og við verið þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi var til skamms tíma litið þannig á að Ísland væri gegnumstreymisland í stað þess að vera áfangastaður. Ég vona að tilkoma nýrra laga um bann við nektardansi komi í veg fyrir mansal og vændi á Íslandi. Sumir óttast reyndar að lögin geri það að verkum að þessir málaflokkar verði enn frekar í undirheimum og því verra að upplýsa þá. Aðrir líta svo á að þessi mál hafi alltaf verið neðanjarðar hvort eð er. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að skoða hvers vegna vændi þrífst svo vel. Þar hlýtur eftirspurnin að ráða för. Mikil fátækt í sumum löndum býður líka upp á það að auðvelt er að blekkja börn og ungt fólk. Rót vandans liggur djúpt og það er hræðilegt til þess að hugsa að börn, ungar konur og menn séu í miklum vanda stödd um víða veröld vegna þess að slík glæpastarfsemi þrífst. Þó að við horfum fyrst og fremst til kynlífsiðnaðar þá er mansal í annarri starfsemi líka, t.d. í verksmiðjum þar sem barnaþrælkun er við lýði,“ segir Ragna ennfremur. Dökku hliðarnar Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahags- svæðinu fylgdi með því jafn búseturéttur og atvinnumöguleikar fólks í Evrópu. Íslendingar njóta góðs af því á sama hátt og aðrir Evrópubúar. Með Schengen-samkomulaginu var aflagt persónueftirlit við för yfir landamæri sem auðveldar fólki að koma hingað til lands án vegabréfaeftirlits. „Dökkar hliðar eru því miður fylgifiskar þess að hafa opin landamæri. Ríkisstjórnin hefur samþykkt aðgerðaráætlun gegn mansali og eftir henni störfum við. Einnig hafa verið gerðar ýmsar lagabreytingar í kjölfarið þannig að það er verið að sporna gegn þessari ógnvænlegu þróun af fullum krafti,“ segir Ragna. Þar sem Ragna hafði starfað í dómsmálaráðuneytinu í mörg ár áður en hún varð ráðherra þekkir hún vel til þessa málaflokks. Hún hefur setið margar alþjóðlegar ráðstefnur um þessi mál. Þrátt fyrir það segir hún að alltaf sé eitthvað að koma á óvart. „Ég er óhrædd að viðurkenna að ég taldi þennan vanda ekki svona mikinn hér á landi. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu aðsteðjandi hættan er. Að í okkar samfélagi geti verið konur sem eru læstar inni og notaðar í kynlífsiðnað. Ég hef séð myndina Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra er ógnvekjandi vá á Íslandi Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, tók óvænt við starfi ráðherra við stjórnarskipti í febrúar 2009 á erfiðum tímum í þjóðfélaginu. Ragna er ekki bundin stjórnmálaflokki og því ekki kjörin á þing. Hún hefur þó náð því að verða vinsælasti ráðherrann í ríkisstjórninni. MANSAL 10-13 MannsalRagna Arnad.indd 2 6/1/10 2:00:18 PM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.