Skírnir - 01.09.1989, Blaðsíða 52
302 ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON SKÍRNIR
hliða, eiginlega mjög frumstæða möguleika til að reyna afl sitt“
(11).
Möguleikarnir eru alls ekki svo einhliða, því að Þórbergur fer út
fyrir landamörk sendibréfsins, þ. e. a. s. einkabréfsins, ekki síður
en palladómsins. Sjálfur leggur Þórbergur að vísu áherslu á einka-
eðli bréfa sinna. Hann segir til dæmis um Bréf til Láru að honum
hafi í fyrstu alls ekki komið til hugar að birta það: „Mig langaði
bara að skrifa Láru Olafsdóttur skemmtilegt bréf.“251 eftirmálan-
um að Pistilinn skrifaði. .. segir hann um bréfin sem þar eru að þau
séu „bara venjuleg sendibréf [...] send þeim mönnum sem þau eru
stíluð til", en svo bætir hann vel að merkja við: „enda eru sum
þeirra [...] löngu kunn hér og þar“ (157). Lesendur bréfanna hafa
greinilega skynjað að þau voru annað og meira en venjuleg einka-
bréf. Arið 1924 farast Þórbergi svo orð um bréf sem hann er nýbú-
inn að ganga frá: „Vilmundur segir, að bréfið til Guðnýjar verði
einhverntíma prentað.“26 Og í eftirmálanum að Pistilinn skrif-
aði. . . er Þórbergur sjálfur að ráðgera frekari birtingar bréfa, svo
sem fyrr sagði. Bréf Þórbergs eru bókmenntasmágrein sem skiptir
meginmáli fyrir stöðu hans í skáldskaparsögunni.
Raunar er pistill betra heiti en bréf og bókartitill Þórbergs er sér-
deilis vel við hæfi. „Pistill" vísar, í og með írónískt, til áðurnefnds
postulahlutverks og „trúarafstöðu“ Þórbergs. Pistill getur merkt
bréf og þá sér í lagi bréf postula eða kafli úr slíku bréfi lesinn við
guðsþjónustu (hið gróteska hlutverk pistilsins sést einmitt vel á því
hvernig Þórbergur notar hann gegn kirkjulegu yfirvaldi). Pistill er
einnig tjáningarform hins reiða spámanns sem les mönnum pistil-
inn, einsog sagt er, og deilir á þá fyrir óviðunandi breytni. En pistill
getur einnig merkt margskonar frjálslega skrifað mál, svo sem til-
kynningu, grein, þátt eða „romsu“ (einsog segir í íslenskri orðabók
Menningarsjóðs). Bréfsformið getur síðan verið einskonar heildar-
rammi utan um ýmiskonar pistla, einsog sést á Bréfi til Láru.
Þegar Þórbergur gefur út Pistilinn skrifaði. . . er hann bersýni-
lega á þeirri skoðun að þetta frjálsa pistlasafn sé það form ritlistar
sem honum láti best. Jafnframt varpar þessi pistilfræði ljósi á Bréf
til Láru, því þótt Þórbergur kjósi ekki beinlínis að endurtaka fram-
úrstefnusnið þeirrar bókar, þá er mikill skyldleiki með því og þeirri
formviðleitni sem sést í Pistilinn skrifaði. . . og þeim útgáfuætlun-