Skírnir - 01.09.1999, Síða 8
Frá ritstjórum
Það er viðamikið verk að gefa út menningartímarit á borð við Skírni og
fleiri koma að því starfi en lesendur kann að gruna. Nú þegar kemur að
því að segja síðasta orðið, setja punktinn aftan við fimm ára starf okkar
sem ritstjórar Skírnis, er okkur efst í huga þakklæti til höfunda, þýðenda,
skálda, myndlistarmanna, yfirlesara, ráðgjafa, prófarkalesara, umbrots-
manns, prentara, hönnuðar, bókbindara og annarra samstarfsmanna sem
komið hafa að útgáfu tímaritsins á þessu tímabili. Reynsla okkar er sú að
Skírnir nýtur velvildar hjá fræðimönnum og ýmsum leikmönnum sem
hafa jafnan verið reiðubúnir að leggja tímaritinu lið.
Viðfangsefni Skírnis í ritstjóratíð okkar hefur verið íslensk menning-
arsaga í víðtækum skilningi. Markmið okkar hefur verið að brúa bilið á
milli fræðilegra rannsókna í mannvísindum og almennra fróðleiksfúsra
lesenda, jafnframt því að vekja umræðu um margvísleg þjóðþrifamál. Við
höfum lagt okkur fram um að bjóða lesendum upp á fjölbreyttar greinar
af ólíkum fræðasviðum en einnig gert þá almennu kröfu að efni tímarits-
ins sé skrifað á vönduðu og auðskiljanlegu máli, laust við óþarfa
tækniheiti. í þessu hefti er að finna greinar um íslenskar bókmenntir að
fornu og nýju, náttúru og þjóðerni, blótsiði fornmanna, heimspeki, ver-
aldarvefinn, íslenska málstefnu, myndlist, stjórnarskrármál og sálfræði
íslenskra ævintýra. Skáld Skírnis er Óskar Árni Óskarsson og myndlist-
armaður Skírnis er Ragnhildur Stefánsdóttir.
Á undanförnum árum hefur fjöldi aðsendra greina til Skírnis aukist
jafnt og þétt og ræður þar vafalítið miklu að gerðar eru sífellt meiri kröf-
ur til íslenskra háskóla- og fræðimanna um að þeir birti niðurstöður
rannsókna sinna. Búast má við að framhald verði á þessari þróun og er
það vel. Það er óskandi að höfundar fræðilegs efnis muni um ókomna tíð
sjá hag sínum vel borgið með því að stuðla að vexti og viðgangi tímarits-
ins. Jafnframt er brýnt að menningartímarit á borð við Skírni séu vett-
vangur fyrir þá sem brölta utan brautar eða ögra þeim viðmiðunum sem
vísindasamfélagið leggur til grundvallar á hverjum tíma. Eins og bent er á
í þessu hefti nefndi Halldór Laxness slíka utangarðsmenn „íslensku aka-
demíuna“ og er tæpast hægt að efast um mikilvægi þeirra fyrir íslenskt
þjóðlíf.
Um leið og við þökkum Hinu íslenska bókmenntafélagi fyrir gott
samstarf, óskum við nýjum ritstjórum, Sveini Yngva Egilssyni og Svavari
Hrafni Svavarssyni, velfarnaðar í starfi.
Róbert H. Haraldsson ogjón Karl Helgason