Skírnir - 01.09.1999, Page 9
RITGERÐIR
VIÐAR HREINSSON
íslenska akademían:
Kotungar í andófi
Og þhir sögðu: Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái
til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla
jörðina. Þá steig Drottinn niður, til þess að sjá borgina og turninn, sem
mannanna synir voru að byggja. Og drottinn mælti: Sjá, þeir eru ein
þjóð og hafa allir sama tungumál og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra:
og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að
gjöra. Gott og vel, stígum niður og ruglum tungumál þeirra, svo að eng-
inn skilji framar annars mál. Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um
alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina. Þess vegna
heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar,
og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina. (I. Mós. 11.1-9.)
I
Hvort sem Drottinn var að stöðva samtakamátt mannanna eða
ofdramb, þá er hálfbyggður Babelsturninn tákn þess ófullkom-
leika sem mannkynið hefur glímt við æ síðan. Ruglun tungnanna
birtir í sjónhending þann annmarka málsins sem um leið er
meginstyrkur þess; ófullkomleiki mannanna er ekki síst sprottinn
af því að óbrúanlegt bil er milli orða og breytni, hugmynda og
veruleika. Málið er tæki til að veita mannlegum kröftum í sameig-
inlegan farveg en það getur hvorki tryggt vald mannanna yfir
veruleikanum né endanlega eindrægni þeirra í milli. A hinn bóg-
inn býr það yfir takmarkalítilli merkingarauðlegð, fjölkynngi sem
sprettur af stöðugri viðleitni manna til að hneppa veruleikann í
orð.1
Spyrja má hvort miðstýrt samfélag nútímans hneigist ekki til
að beina öllu í sama farveg, byggja sama turn. Ohjákvæmileg
1 Þorsteinn Gylfason er upphafsmaður þess að kalla þessa merkingarauðlegð
fjölkynngi og stefnir henni gegn fyrirbærum eins og einþykkni og skilgrein-
ingaveiki. Sjá t.d. Að hugsa á íslenzku: 127-32.
Skírnir, 173. ár (haust 1999)