Skírnir - 01.09.1999, Page 22
268
VIÐAR HREINSSON
SKlRNIR
Þær deila á lífshætti nútímasamfélagsins með því að bregða upp
skuggsjá annarra lífshátta og viðhorfa. Faðir Uglu og sveitungar
hans eru fulltrúar einfaldra og jarðbundinna lífsviðhorfa, heims
sem er að hverfa smátt og smátt. Þeir eru að byggja guði sínum
kirkju, en það var ekki þessi venjulegi lútherski guð, heldur
grunnregla lífs og grósku. Það var engin altaristafla í kirkjunni,
heldur gluggi sem sóknarpresturinn hafði lagt blessun sína yfir.
Með ísmeygilegum orðaleik segir presturinn að glugginn opni
mönnum sýn til blekkingar sköpunarverksins:
Fögur er hlíðin, sagði faðir minn.
Fögur er hlíðin, endurtók presturinn: þar kemur nefnilega altíeinu
upp heiðindómurinn í íslendingasögunum. Til þess er kristindómurinn
að maður sjái ekki hlíðina. Og til þess er kirkja, að byrgja fyrir manni
náttúruna, að minsta kosti um messu. I fornum kirkjum voru allar rúður
málaðar. Og fyrir ofan altarið í öllum kirkjum heims, meira að segja
okkar lútersku kirkjum, nema þessari, er mynd eða tákn sem leiðir hug
manns að leyndardómum heilagrar trúar, burt frá blekkíngu sköpunar-
verksins.
Til hvers eruð þið að hafa kirkju, spurði ég. Á hvað trúið þið?
Þá stóð presturinn upp og kom til mín og klappaði mér á kinnina og
sagði, það er nú einmitt það vina mín: Við trúum á landið sem guð hefur
gefið okkur; á sveitina þar sem fólkið okkar hefur átt heima í þúsund ár;
við trúum á hlutverk sveitanna í íslensku þjóðlífi; við trúum á grænu
brekkuna þar sem allífið á heima. (Atómstöðin: 163-64)
Leyndardómar heilagrar trúar eru táknkerfi sem stendur á
milli mannsins og náttúrunnar, út af fyrir sig ein tilraunin til að
fylla í tómið milli tungumáls og veruleika. Orðalagið „blekkíng
sköpunarverksins" gefur þó til kynna að einmitt trúin og tákn-
kerfið telji sig æðri hinum ytri veruleika. Græna allífsbrekkan
stendur hins vegar fyrir þann jarðbundna sannleika sem Laxness
tók að aðhyllast æ meir í stað kreddukenninga og táknkerfa.
Ómiðluð náttúran, þ.e. „blekking sköpunarverksins", og tákn
trúarinnar eru tvö meginskaut sem standa í stöðugri víxlverkan í
verkum Laxness, hið lága og jarðbundna og hið háa og guðlega
sem er hin æðri merking, leit manna að fullkomnun í tilveru
sinni. Hvorugt getur án hins verið, í samleik moldar og orðs og
leit að jafnvægi þar á milli.