Skírnir - 01.09.1999, Side 23
SKÍRNIR ÍSLENSKA AKADEMÍAN: KOTUNGAR í ANDÓFI
269
Organistinn er fulltrúi hins jarðbundna viðhorfs innan marka
borgarinnar, undarlegur heimspekingur sem sefur á daginn og
vakir á nóttunni til að þurfa ekki að horfa á heimsku mannlífsins.
Hann minnir á Díógenes í háttum sínum, er nægjusamur og sér
hlutina í óvæntu samhengi. Hús hans er opið fyrir úrhrökum
samfélagsins, portkonum og þjófum. Hann er blíður og um-
hyggjusamur, ræktar blóm og lætur þjófana brenna peningana
sem þeir stálu en fimm mínútum síðar fær hann lánaða krónu hjá
Uglu til að kaupa fyrir rósir. Organistinn er Kristsmynd líkt og
Guðmundur gamli stúdent, sú uppreisnargjarna Kristsmynd sem
endurreisir hina útskúfuðu, sinnir hinum minnstu bræðrum.
Sagan er þroskasaga Uglu. Hún stendur á milli þessara vitru
manna og hins kaldhæðna kapítalista og stjórnmálamanns Búa
Arland, sem var aðlaðandi og gáfaður en samgróinn spilltum
heimi peninga og pólitíkur. Ugla kynntist þessum heimi en þótti
frá byrjun að hún væri með öllu ólík honum, þótt Búi freistaði
hennar. Hann var einn þeirra þingmanna sem sóru landinu trún-
aðareiða um leið og þeir seldu það. Ugla hváði við og spurði
sveitunga sína hvort það væri rétt:
Vel skildist hvað hann átti við þó hann tæki ekki mikið uppí sig, blessað-
ur öðlíngurinn, sögðu þeir, og í svarinu sá ég altíeinu grímuna sem hann
bar gagnvart þreyttum fátækum kjósendum sínum í dölum Norður-
lands: öðlíngur, eitthvað í líkingu við gamlan náttúrulausan biskup. Enda
hefðu slíkir menn aldrei skilið að hann var sjálfur of lángmóður af sól-
breyskju góðra daga til að hafa áhugamál, of mentaður til þess það biti á
hann nokkur ásökun, áleit mannlífið innantóman skopleik, og þó öllu
heldur slys; og leiddist. (Atómstöðin: 171)
Viðhorf Búa er hálfkæringur eða kaldhæðni gagnvart eigin rangs-
leitni. Grímuklætt samband hans við bændurna fátæku er tvö-
feldni dugleysisins, hann gat brugðið fyrir sig tungutaki þeirra, en
vann gegn þeim í verki, vissi af því og hæddist að. Reisn hinna
lágt settu myndar sterka andstæðu við breytni Búa.
Leitin að sannmæli tekur á sig ýmsar myndir. Kristur sagði:
Biðjið, og yður mun gefast; leitið, og þér munuð finna; knýið á, og fyrir
yður mun upp lokið verða; því að sérhver sá öðlast, er biður, og sá finn-
ur, er leitar, og fyrir þeim mun upp lokið, er á knýr. Eða hver er sá meðal