Skírnir - 01.09.1999, Page 47
SKÍRNIR STÚLKUBARNIÐ LJÓSA OG SVARTI KÖTTURINN
293
með gullkambi og gullgreiðu. Kisa verður ókyrr, ráfar út og inn
og segir:
„Þú ættir ekki að sitja úti núna, Ingibjörg systir, - þú hefir ekki gott af
því.“ - „Svei þjer kisa, jeg er ekki systir þín“, segir Ingibjörg. - Þetta
gengur nokkrum sinnum, - og kisa fær altaf sama svarið. - Þá, alt í einu
dregur fyrir sól, og skýflóki mikill vindur sjer yfir kóngsdóttur og rífur
úr henni annað augað. -
Hér er Kisa rödd hins dulvitaða sem veit hvað Ingibjörgu er fyrir
bestu. Ingibjörg fær ráðningu fyrir ótímabæran verknað. Sú sem
hirtir Ingibjörgu fyrir tiltækið er skessa í líki skýflóka. Skessan
hrifsar úr henni augað, leggur það í pung við belti sitt og lífgras
við, því hún ætlar að græða það í dóttur sína.
Sálfræðingurinn Ernest Jones heldur því fram að í risum og
tröllum ævintýranna birtist ýmsar hugmyndir barna um atferli
fullorðins fólks, einkum foreldra (1965: 100). Ekki er fjarri lagi að
ímynda sér að móðirin birtist dóttur sinni hér í líki skessu. Móð-
irin, sem hefur frá upphafi vakað yfir velferð barnsins síns, veit að
litla dóttir hennar býr yfir ýmsum eiginleikum og hvötum og
skynjar að nú þarf að leiðbeina henni.
Bettelheim (1979: 67-69) bendir á þá tilhneigingu hjá barninu
að deila einni og sömu persónunni í tvennt þegar hún andmælir
barninu eða niðurlægir það. Hin góða amma á sér úlfshlið og
móðirin verður að stjúpu eða skessu þegar hún gerir kröfur til
barnsins síns sem það er ekki tilbúið að verða við. Börn grípa til
þess að kljúfa persónur með þessum hætti þegar sektarkennd
verður hluti af sálarlífi þeirra. Reiði og hatur út í einhvern ná-
kominn veldur óbærilegri sektarkennd. Með klofningnum er
barninu mögulegt að halda í hina algóðu móður. Barnið á það líka
til að deila sjálfu sér í tvær persónur, sig sjálft og aðra veru sem
gerir eitthvað af sér sem barnið á erfitt með að horfast í augu við.
Það má líta á dóttur skessunnar sem slíkan hluta kóngsdóttur.
Eftir að Ingibjörg hefur verið blinduð á öðru auga hefst langt
og mikið ferðalag sem þær systur takast einar á hendur og er ekki
getið neinna stórtíðinda. Bettelheim (1979: 150, 214, 232) vekur
athygli á því að innri vöxtur og þroski krefjist einbeitingar og í