Skírnir - 01.09.1999, Page 50
296
KRISTÍN UNNSTEINSDÓTTIR
SKÍRNIR
Sá tími nálgast að kóngsdóttir verði undir það búin að takast á
við kynhlutverk sitt. Því sækir hún kraft í nautin, en þær skepnur
gegndu hlutverki í frjósemisdýrkun fyrr á tíð, bæði í krítverskri
trúariðkun og Týsdýrkun ásatrúarmanna (Simek 1993: 178).
Cooper (1993: 83, 250) hefur bent á að í goðsögum hafi bæði naut
og hestar tilvísanir í karlmannlega iðju. Að máta sig við karlleik-
ann gengur þó ekki átakalaust hjá ungri stúlku, enda verða menn
kóngsins ævareiðir þegar Kisa hirðir bestu bitana af nautinu.
Ekki líður á löngu þar til Sigurður kóngssonur kemur auga á
Ingibjörgu þar sem hún kembir sitt gullna og fagra hár. Hann fær
á henni svo mikla ást að hann kveðst muni deyja ef hann fái
hennar ekki. Þegar kóngur biður Ingibjargar til handa Sigurði
syni sínum svarar Kisa:
„Það má takast,“ segir kisa, „ef Sigmundur vill giftast mjer.“
„Þjer, kettinum!" „Já, mjer kettinum, - annars fær Sigurður aldrei
Ingibjörgu.“
Kóngsdóttur er ljóst að það er lífsnauðsynlegt hamingju hennar
að mannsefnið geti tekið við henni eins og hún raunverulega er,
sem kona og kynvera. Rétt eins og Kisa og Ingibjörg eru tvær
hliðar á sömu stúlku eru Sigurður og Sigmundur tákngervingar
fyrir tvær hliðar á sama pilti. Kóngssonurinn er hræddur við að
taka við kynhlutverki sínu og barátta hans við óttann varir um
hríð uns hann vinnur bug á hræðslu sinni með hjálp föður síns,
það er karlmennskuímynd sinni. Þegar kóngur hefur fengið ótví-
ræð skilaboð Kisu fer hann til Sigurðar sonar síns. Viðskiptum
þeirra feðga er lýst þannig:
[... ] - hann kemur inn til Sigurðar, sem liggur í bólinu, fölur og tekinn,
með sóttargljáa í augunum. - Kóngur segir honum samtal sitt við kisu. -
Sigurður þegir, en elnar sóttin. Kóngur reynir að tala um fyrir honum,
en alt kemur fyrir ekki. Líður nú dagurinn og nóttin með, - Sigurður
neytir hvorki svefns nje matar, og er ástand hans hið alvarlegasta.
Kóngur gerist nú milligöngumaður og honum er ljóst að hann
getur ekki talað um fyrir Sigmundi nema honum lánist að ljúka
upp augum hans fyrir alvarlegum veikindum Sigurðar.