Skírnir - 01.09.1999, Side 60
306
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
sem lent höfðu undir stjórn furstans.4 Þjóðríki geta ekki búið við
slíka óvissu vegna þess að í þeim eiga þegnarnir fullveldið í sam-
einingu og því verður að vera ljóst hvar mörk þjóðanna liggja,
sem um leið markar hvar eitt lagakerfi hefst og annað endar. Og
þótt oft sé næsta augljóst að landamæri ríkja eigi sér fremur til-
viljanakenndan uppruna, öðlast landið sem þau afmarka fljótt til-
finningaþrungna tilvísun í hugum þegnanna - í hinni pólitísku
orðræðu er ættjörðin oft talin heilög sameign þjóðarinnar, þrátt
fyrir að samkvæmt nútíma réttarvenjum sé hún yfirleitt að mestu
bútuð niður í smærri svæði og skika í einkaeigu.
Af þessum sökum er eitt helsta markmið þjóðernissinna hvar
sem er í heiminum að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir ættjörðinni
allri og halda þeim hvað sem á dynur. Þannig breyttist trú Gyð-
inga í síoníska þjóðernisstefnu með kröfunni um pólitísk yfirráð
yfir Landinu helga og fáar deilur nútímans vekja jafn djúpar
tilfinningar og landamærastríð, og þá ekkert síður þótt engir auð-
sæir efnahagslegir hagsmunir séu í húfi - eða a.m.k. eru þeir oft
mun minni en nokkur von er til að vinnist með vopnuðum átök-
um. I samtímanum má sjá sorglegar hliðar þessara tengsla þjóð-
ernistilfinningar og landsvæða í deilum um Kósovóhérað á landa-
mærum Albaníu og Serbíu. Þar neita Serbar öllum kröfum um að
leyfa íbúum héraðsins, sem flestir hafa albönsku að móðurmáli
og játa múhameðstrú, að njóta sjálfsákvörðunarréttar þjóðar, sem
gjarnan er talin sjálfsögð regla í alþjóðarétti. Þessa afstöðu styðja
Serbar þeim rökum að landsvæðið sem Albanir búa á sé þeim,
Serbum, sögulegur helgidómur, eitthvað í líkingu við Þingvelli í
hugum Islendinga, og því verði það aldrei af hendi látið.5 Hér
birtist eitt helsta vandamál þjóðernisstefnunnar í hnotskurn, en
það felst í því að hinn flókni vefur sögu og náttúru, sem öllum Is-
lendingum á að vera ljós þegar þeir sækja Þingvelli heim, er alls
4 Anthony Giddens, A Contemporary Critique of Historical Materialism. 2. bd.
Nation-State and Violence (Cambridge, 1985), bls. 49-51, 88-90, 120-21 og
víðar.
5 Sjá t.d. James Gow, Legitimacy and the Military: The Yugoslav Crisis
(London, 1992), bls. 64-72 og Dusko Doder, The Yugoslavs (London, 1979),
bls. 31-35.