Skírnir - 01.09.1999, Side 61
SKÍRNIR
,HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND'
307
ekki alltaf jafn óumdeildur. Þannig getur sjálfsákvörðunarréttur-
inn stangast á við kröfuna um skilyrðislausan umráðarétt yfir
ættjörðinni og í slíkum deilum er yfirleitt erfitt að finna mála-
miðlun sem öllum líkar.
Islendingar hafa aldrei þurft að glíma við vandamál af þessum
toga vegna þess að engin óvissa hefur ríkt um landamæri hins ís-
lenska þjóðríkis, nema ef vera skyldi á dögum landhelgisdeilna
við Breta. íslensk náttúra og samband þjóðarinnar við landið hef-
ur þó frá upphafi verið ofarlega í hugum íslenskra þjóðernissinna.
Þannig boðuðu Fjölnismenn, með náttúrufræðinginn Jónas Hall-
grímsson í fararbroddi, hvort tveggja í senn rómantíska þjóðern-
isvitund og tilfinningaríka og skilyrðislausa ást til landsins. Líta
má á kvæðið „ísland“ eftir listaskáldið góða sem eins konar
stefnuyfirlýsingu tímaritsins Fjölnis í þessum efnum, enda birtist
það fremst í íslenska flokki fyrsta árgangs þess. Lýsing Jónasar á
landinu upphefur fegurð íslands, en honum verður ekkert sér-
staklega starsýnt á frjósemi þess eða gróður; hvergi er þar vitnað í
frásögn íslendingabókar um að ísland hafi verið viði vaxið milli
fjalls og fjöru við landnám - þess í stað lofsyngur hann fannhvíta
jöklana og fegurð himins og sjávar:
Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.6
Erfitt er að gera sér fulla grein fyrir mikilvægi Fjölnismanna í
mótun íslenskrar þjóðernisstefnu, a.m.k. virtust landar þeirra taka
heldur dræmt í málflutning tímaritsins þótt það hafi á seinni tím-
um verið talið einn merkasti árgali íslenskrar sjálfstæðisbaráttu.
Sigurður Nordal orðaði þetta þannig, í hátíðarræðu sem hann
hélt á Hrafnseyri árið 1944 í tilefni lýðveldisstofnunar, að íslend-
ingar hafi skilið „Fjölni illa, tóku vandlætingunni með þykkju og
fegurðarsmekknum með fálæti, enda báru þeir Fjölnismenn tak-
6 Jónas Hallgrímsson, „ísland", Fjölnir 1 (1835), íslenzki flokkurinn, bls. 21-22.
Þessar ljóðlínur eru sagðar hafa birst Konráði Gíslasyni í draumi og eru þær
því að vissu leyti sameign Fjölnismanna, sbr. Jónas Hallgrímsson, Ljóðmæli,
Tómas Guðmundsson gaf út (Reykjavík, 1947), bls. 361.