Skírnir - 01.09.1999, Page 66
312
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
Vitanlega voru mjög gildar ástæður fyrir þessari ofuráherslu á
íslenska tungu í málflutningi forkólfa sjálfstæðisbaráttunnar. I
fyrsta lagi voru tungumál einmitt talin helsta kennitákn þjóðernis
í Evrópu á mótunarskeiði þjóðernisstefnunnar. Hér gegndi þýski
heimspekingurinn Johann Gottfried Herder lykilhlutverki, en
hann hafnaði alþjóðahyggju upplýsingarstefnunnar við lok 18.
aldar. Þess í stað hélt hann sérstöðu hvers málsvæðis á lofti, enda
var samskiptasaga manns og umhverfis að hans mati fólgin í
tungumálinu - þ.e.a.s. orðaforði og skipulag tungumálsins væri
mótað af endalausri baráttu mannsins við náttúruna sem hann
starfaði í. Það var síðan J. G. Fichte sem þróaði þessar hugmyndir
um samband máls og þjóðernis í sitt endanlega form. Honum var
ekki nóg að halda mikilvægi tungumálsins á lofti, heldur bætti
hann því við að einungis þær þjóðir sem töluðu „upprunaleg"
tungumál gætu í raun talist þjóðir, vegna þess að þær einar varð-
veittu hið helga samband mannsins við umhverfið.13 Nærtækast
er að rekja áherslu Fichtes á uppruna tungumálanna til minni-
máttarkenndar Þjóðverja við upphaf 19. aldar gagnvart þrúgandi
yfirráðum Frakka á tímum Napóleonsstríða, en hugmyndir hans
höfðuðu þó mjög greinilega til Islendinga, sem státuðu af því að
tala hina upprunalegu tungu norrænna manna. Þetta var vendi-
lega undirstrikað í orðum samninganefndarinnar sem vitnað var
til hér að framan, þótt hvergi komi fram að þeir hafi gert sér fylli-
lega ljóst hvert rökin voru sótt.
Hin meginástæðan fyrir mikilvægi tungumálsins í sjálfstæðis-
baráttunni var sú staðreynd að hugmyndin um menningarlega
sérstöðu Islendinga, ef ekki yfirburði, átti góðan hljómgrunn í
Danmörku, enda hafði þýsk hugmyndafræði lengst af geysilega
sterk áhrif á danskt menningarlíf. í augum Dana var íslenskan
móðurtunga allra norrænna tungumála og því bar að varðveita
13 Johann Gottlieb Fichte, „Reden an die deutsche Nation“, Johann Gottlieb
Fichte’s sdmtliche Werke. 7. bd. (Berlín, 1846 [1808]), bls. 320-27, 377-78 og
víðar. Sbr. Sigríður Matthíasdóttir, „Réttlæting þjóðernis. Samanburður á al-
þýðufyrirlestrum Jóns Aðils og hugmyndum Johanns Gottlieb Fichte“, Skírn-
ir 169 (vor 1995), bls. 36-64 og Guðmundur Hálfdanarson, „Hvað gerir ís-
lendinga að þjóð? Nokkrar hugleiðingar um uppruna og eðli þjóðernis",
Skímir 170 (vor 1996), bls. 7-31.