Skírnir - 01.09.1999, Page 69
SKÍRNIR
,HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND'
315
og logagneistum stjörnur strá
um strindi, hulið svellum,
en hoppa álfar hjarni á,
svo heyrist dun í fellum.
Þú, fósturjörðin fríð og kær!
sem feðra hlúar beinum
og lífið ungu frjóvi fær
hjá fornum bautasteinum;
ó, blessuð vertu, fagra fold,
og fjöldinn þinna barna,
á meðan gróa grös í mold
og glóir nokkur stjarna.17
Sennilega náði kveðskapur þessarar ættar hvað hæst í ljóðum
Steingríms Thorsteinssonar, en í þeim verður samneyti einstak-
lings við náttúruna að eins konar trúarlegri upplifun. „Náttúran
er uppspretta dýpstu huggunar og styrks sökum þess, að hún er
endurskin æðstu hugsjónar, ídeals, sem er guð“ segir Hannes Pét-
ursson um skáldskap Steingríms.18 Hin rómantíska náttúrusýn Is-
lendinga var þó oftast lituð nytjahyggjunni, enda voru kjör yfir-
gnæfandi meirihluta landsmanna slík að brýnna þótti að bæta
efnahaginn og nýtingu landgæða en mæra fegurð landsins, a.m.k.
eins og hún birtist í gróðursnauðum sandauðnum, hraunum eða
jöklum.19 Rómantísk náttúrusýn krefst vissrar fjarlægðar frá nátt-
úrunni og um leið nokkurrar vissu um að hún ógni ekki lífi og
tilveru manna, og meirihuti íslendinga bjó lengst af ekki við þann
17 Jón Thoroddsen, Piltur og stúlka. 6. útg. Steingrímur J. Þorsteinsson bjó til
prentunar (Reykjavík, 1948) bls. 106-107.
18 Hannes Pétursson, Steingrímur Thorsteinsson - líf hans og list (Reykjavík,
1964), bls. 151; sbr. einnig Páll Valsson, Islensk bókmenntasaga. 3. bd., Hall-
dór Guðmundsson, ritstj. (Reykjavík, 1996), bls. 367-76.
19 I þessu sambandi má benda á ádeilu „Borgfirðingsins" Eiríks Sverrissonar
sýslumanns á boðskap Fjölnismanna, þar á meðal náttúrusýn þeirra, sem birt-
ist í Sunnan-Pósti árið 1836; sjá Svein Yngva Egilsson, „„Óðinn sé með yður!“
Fjölnismenn og fornöldin", í Sverrir Tómasson, ritstj., Guðamjöður og arnar-
leir. Safn ritgerða um eddulist (Reykjavík, 1996), bls. 261-94.