Skírnir - 01.09.1999, Page 70
316
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
munað að telja sig ónæman fyrir duttlungum náttúrunnar.20
Aldamótakynslóðin, sem gekk óskipt þjóðernisstefnunni á hönd,
lagði því mesta áherslu á að rækta land og tungu, auk framfara í
tækni við nýtingu auðlinda í fallvötnum og hafinu í kringum
landið. Ástin á landinu og áhuginn á framförum þjóðarinnar flétt-
ast þannig saman í huga Jóns Trausta við upphaf nýrrar aldar, en
fyrsta erindi „Islandsvísna", sem hann orti árið 1901, hljómar svo:
Eg vil elska mitt land,
eg vil auðga mitt land,
eg vil efla þess dáð, eg vil styrkja þess hag.
Eg vil leita’ að þess þörf,
eg vil létta þess störf,
eg vil láta það sjá margan hamingjudag.
Skyldan bauð skáldinu að leita nýrra verkefna sem yrðu landi og
þjóð að gagni; „þessi hraun eru mein, sem að græða mér ber“ seg-
ir hann síðar í kvæðinu, og bætir síðan við:
Eg vil frelsi míns lands,
eg vil farsæld míns lands,
eg vil frægð þess og gnægð og auð þess og völd;
eg vil heiðursins krans
leggja’ að höfði hvers manns,
sem vill hefja það fram móti batnandi öld.21
Herhvöt nýrrar aldar klifaði á þessu stefi, þ.e. að landið byggi yf-
ir óþrjótandi gæðum sem þjóðinni væri ætlað að virkja í því skyni
að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. „Þetta land á ærinn auð
20 Norsk rómantík virðist svipuðu marki brennd og af sömu ástæðu, sjá Nina
Witoszek, „The Anti-Romantic Romantics; Nature, Knowledge, and Identity
in Nineteenth-Century Norway“, í Mikulás Teich, Roy Porter og Bo Gustafs-
son, ritstj., Nature and Society in Historical Context (Cambridge, 1997), bls.
209-27.
21 Guðmundur Magnússon Qón Trausti], „Islandsvísur. Tileinkaðar hinum hátt-
virtu þingmönnum á alþingi 1901“, í Guðmundur Magnússon og Þórarinn B.
Þorláksson, Islandsvísur (Reykjavík, 1903), bls. 3-5.