Skírnir - 01.09.1999, Síða 73
SKÍRNIR
,HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND'
319
Á vissan hátt er tvíbent náttúrusýn sjálfstæðisbaráttunnar
knúin áfram af þeirri einföldu staðreynd að Island er mjög
hrjóstrugt land og afskaplega illa til landbúnaðar fallið. Ræktun
landsins, með öllum sínum þúfum, uppblæstri, hraunum, vind-
belgingi og veðurhörkum, var ekkert sjálfsagt mál og þess vegna
þurfti stöðugt að hamra á því við landsmenn að hægt væri að
bæta búskapinn, eða jafnvel breyta afli fossanna í rafmagn lands-
mönnum til gagns. Óblíð náttúran var að hluta til tamin með því
að upphefja hana - með því að leggja ofuráherslu á sólríka sumar-
daga og litfagran gróður í brekku var dregið úr þeirri ógn sem
Islendingnum stafaði af óblíðum vetrarveðrum eða hamförum
náttúrunnar. Fegurðarþroskinn og viljinn til framfara voru því
tvær leiðir að sama marki, sem var að festa þá mynd í huga Is-
lendingsins að landið væri í raun byggilegt þrátt fyrir að saga þess
og náttúrufar benti oft til annars, um leið og að fátækt þjóðarinn-
ar væri sinnuleysi hennar sjálfrar eða slæmum valdhöfum að
kenna, en alls ekki óhjákvæmileg örlög Islendinga um aldur og
ævi.25
Áður en horfið er frá rómantískri nytjahyggju sjálfstæðisbar-
áttunnar er nauðsynlegt að slá tvo varnagla. I fyrsta lagi er af-
skaplega erfitt að ákvarða hve djúpt hin rómantíska náttúrusýn
risti í samfélagi 19. aldar á Islandi, en eins og sést af orðum Jónas-
ar frá Hriflu, í kaflanum sem vitnað var til hér að ofan, taldi hann
að Islendingar væru almennt blindir á fegurð náttúrunnar í kring-
um sig. Hugmyndir okkar um viðhorf manna á fyrri tímum eru
ávallt mótuð af því sem tókst að brjótast í gegnum múr meðvit-
aðrar og ómeðvitaðrar ritskoðunar þeirra sem réðu yfir prent-
smiðjum og fjölmiðlum landsins, en því miður heyrðust fyrst og
fremst raddir mjög takmarkaðs hóps íslendinga á opinberum
vettvangi. Skoðanir og viðhorf sauðsvarts almúga eða óskóla-
25 Kvæði Jónasar Hallgrímssonar „Gunnarshólmi“ er gott dæmi um hvernig
hnignun landgæða er tengd afturför þjóðarinnar. „Þar sem að áður akrar huldu
völl / ólgandi Þverá veltur ifir sanda ... I flúinn er dvergur, dáin hamra tröll, /
dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;“ segir hann í lokaerindinu; Fjölnir 4
(1838), íslenzkji flokkurinn, bls. 31-34, en um leið má líta á hástemmda lýsingu
á Fljótshlíð þjóðveldisaldar hvar „við bleikan akur rósin blikar rjóða“, sem
ábendingu um að þjóðin geti risið úr öskustónni á ný ef viljinn er fyrir hendi.