Skírnir - 01.09.1999, Page 83
SKÍRNIR
,HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND'
329
væri sitt af landbúnaði til nútímaatvinnuhátta þar sem rúmur
helmingur þjóðarinnar vinnur við þjónustu og verslun. Svo gripið
sé til tölfræði má benda á að á síðasta áratugi 19. aldar bjuggu að-
eins um 14% landsmanna í þéttbýli - og það þótt hugtakið þétt-
býli sé látið ná til allra byggðakjarna með yfir 200 íbúum - á með-
an 90% Islendinga bjuggu í þéttbýli árið 1990, og þá reyndar nær
60% á höfuðborgarsvæðinu einu saman.50 Þessi þróun hefur
breytt algerlega samskiptum manns og náttúru á Islandi, þar sem
þjóðfélagið hefur fjarlægst náttúrulegt umhverfi sitt í mun ríkari
mæli en áður var. Nú lifir meirihluti landsmanna og hrærist í
manngerðu umhverfi og er að mestu óháður duttlungum náttúru-
aflanna. Atvinna yfirgnæfandi meirihluta Islendinga hefur einnig
fjarlægst beina nýtingu auðlinda náttúrunnar.51 Sem dæmi um
þetta má nefna að þótt oft sé sagt að íslenskt þjóðlíf eigi allt sitt
undir fiskveiðum koma afskaplega fáir nútíma íslendingar nálægt
fiskvinnslu og kynnast henni tæpast á annan hátt en í frásögnum
fjölmiðla. Það er líka löngu liðin tíð að landbúnaður teljist höf-
uðatvinnugrein landsmanna, og sárafáir þéttbýlisunglingar kynn-
ast sveitastörfum á sumrin eins og alsiða var fyrir örfáum áratug-
um.
Breytt staða mannsins í náttúrunni hefur ýtt undir nýja teg-
und þjóðernislegrar afstöðu til hennar. Lengst af gekk íslensk
þjóðernisstefna út frá því að æðsta takmark framþróunar væri að
efla efnahagslíf landsins og bæta kjör þjóðarinnar, en slíkt var
talið gerast best með bættri tækni í landbúnaði og fiskveiðum,
virkjun fallvatna og sífellt víðtækari stjórnun náttúruaflanna. Það
fegursta sem menn sáu voru vel ræktuð tún og feitir dilkar af
fjalli, drekkhlaðin skip sem báru afla að landi eða virkjanir sem
breyttu afli fossa í rafmagn og léttu með því lífsbaráttu íslend-
inga. Af þessum sökum fannst Jóni Thoroddsen ekki nein goðgá
felast í því að Indriði og Sigríður brytu Fagrahvamm undir bú-
skap eða Einari Benediktssyni að Dettifoss yrði beislaður, þótt
50 Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, Hagskinna. Sögulegar hagtöl-
ur um ísland (Reykjavík, 1997), bls. 86-87 og 90-91.
51 Árið 1801 framfærðu 90% þjóðarinnar sig á landbúnaði og fiskveiðum, en
1990 var þetta hlutfall komið niður í um 10%; sama rit, bls. 217.