Skírnir - 01.09.1999, Page 97
SKÍRNIR
HLÆJANDI GUÐIR OG HELGIR MENN
343
Eftir að Búddha dó sást skuggi hans um aldir í helli nokkrum, gríðar-
mikill og skelfilegur skuggi. Guð er dauður; en ef marka má hætti manna
verða e.t.v. í árþúsundir til hellar þar sem skuggi hans mun sjást. - Og
við - við verðum einnig að sigrast á skugga hans.18
Hér er því síður en svo slegið upp sem glóðvolgum fréttum að
guð sé allur. Gengið er að því sem gefnu, setningin er því sem
næst notuð sem sjálfgefin forsenda og tilvitnunin miðar einmitt
að því að draga af henni ályktun.19 Og ályktunin er sú að við
þurfum að sigrast á skugga guðs; það sé hin nýja barátta.20
Á ólíkum stöðum í verkum Nietzsches stendur reyndar ýmist
að dauði guðs sé mesti nýi atburðurinn (KSA 3, 573), hann hafi
gerst fyrir skömmu, en einnig að langt sé síðan gömlu guðirnir
enduðu ævina (KSA 4, 230). Hvernig sem því hagar til hafa tíð-
indin spurst út, eru á allra vitorði; menn telja sig a.m.k. vita um
dauða guðs.
Þekktasti staðurinn í verkum Nietzsches þar sem dauða guðs
ber á góma er vafalítið §125 í Hinum hýru vísindum. Þessi hluti
er svo mikilvægur að ástæða er til að vitna ítarlega í hann hér.
Upphafið er svona:
Óði maðurinn. - Hafið þið ekki heyrt um óða manninn sem kveikti á
lugt um hábjartan morgun og hljóp inn á markaðstorgið og æpti án af-
láts: „Ég leita guðs! Ég leita guðs!“ - Þar eð margir af þeim sem ekki
trúðu á guð voru nærstaddir, vakti hann mikinn hlátur. Hefur hann
týnst? spurði einn. Villtist hann líkt og krakki? spurði annar. Eða er
hann í felum? Óttast hann okkur? Er hann lagstur í ferðalög? Land-
flótta? - Þannig æptu þeir og hlógu hver í kapp við annan.
18 Friedrich Nietzsche, Sdmtliche Werke: Kritische Studienausgabe in 15 Bande
(hér eftir KSA), útgef. Giorgio Colli og Mazzino Montiari, Berlín/New York:
Walter de Gruyter 1967-1977, bindi 3, bls. 467.
19 í annað sinn sem dauða guðs ber á góma í Svo mœlti Zaraþústra er það einnig
með sama látlausa hætti: „Einu sinni var glæpur gegn guði hinn versti glæpur,
en guð dó og með honum dóu þess konar ódæði“ (42). Hér er áherslan einnig
lögð á að bregðast við dauða guðs en ekki að boða hann.
20 Skugginn er eitt mikilvægasta fyrirbærið í verkum Nietzsches og kallast á við
hið mikla hádegi en þegar sólin er í hádegisstað hverfa allir skuggar. Síðast
setning Zaraþústru er einmitt: „Þetta er morgunn minn, dagur minn er að
hefjast: upp með þig nú, upp þú mikla hádegiV‘ (314).