Skírnir - 01.09.1999, Síða 102
348
RÓBERT H. HARALDSSON
SKfRNIR
hygli hans; á þau hafi hann ekki einu sinni eytt tíma sem barn
(KSA 6, 278). Þessi hugtök séu einfaldlega of klunnaleg og gróf-
gerð, a.m.k. fyrir hugsuð. Áhugi Nietzsches beinist hins vegar að
því í okkur sem fæðir af sér og drepur guði.
Hinn frumspekilegi skilningur
Hin frumspekilega túlkun á dauða guðs er til í ólíkum útgáfum,
misjafnlega vel útfærð. Stundum merkir hún að engin gildi séu
lengur raunveruleg eða að engin endanleg gildi séu möguleg. Hjá
enn öðrum að veruleikinn sé kaos. I frumspekilegri túlkun Mart-
ins Heidegger á verkum Nietzsches fær dauði guðs þá merkingu
að hinu yfirskilvitlega sé hafnað, handanheimurinn hafi glatað
áhrifamætti sínum.24 Heidegger skoðar setninguna „Guð er
dauður“ nálega sem merkimiða fyrir ákveðna frumspekilega
afstöðu og hafa margir heimspekingar fylgt dæmi hans.25 Mark-
mið þessa hluta er að leiða rök að því að hin frumspekilega túlk-
un hafi bjagað viðhorf okkar til dauða guðs í verkum Nietzsches
og skyggt á mjög mikilvægan flöt á hugsun hans.26
Hin frumspekilega túlkun ýkir mjög áhuga Nietzsches á
heimi handan þess sem við nemum í skynjun okkar. Samkvæmt
henni er Nietzsche gersamlega heillaður af því að hafna tilvist
handanheimsins, ekki síst í skilningi hugmyndasögunnar. Dauði
guðs táknar þá fyrst og fremst hrun yfirskilvitlegra viðmiða,
skipbrot eilífs veruleika handan þess sem við nemum í reynslu
okkar eða getum fest hönd á. Trúarbrögðin spruttu úr hinni
frumspekilegu þörf, þörfinni fyrir óbreytilegan, varanlegan heim.
Og trúarbrögðin svöruðu með tilgátum, hugmyndum, sem hvert
mannsbarn þekkir nú á dögum: Guð, himnaríki, eilíft líf, blessun,
24 Martin Heidegger, „Nietzsches Wort “Gott ist tot”“, bls. 200 og víðar. Rétt er
að taka fram að markmið þessa hluta er ekki það að hrekja túlkun Heideggers.
Slíkt kallar á viðameiri ritgerð.
25 Sjá umræðu hér að framan.
26 Það er t.d. lærdómsríkt að skoða hversu mikla frumspeki og víðtækar pæling-
ar um handanheiminn Heidegger nær að lesa út úr sögunni um óða manninn.
Sjá Martin Heidegger, „Nietzsches Wort “Gott ist tot”“, bls. 198 o.áfr., eink-
um 241.