Skírnir - 01.09.1999, Page 106
352
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
undan. Þessu ástandi má líkja við heim fíkilsins eftir að hann segir
skilið við vímuefnin.29 Ekkert hangir saman, veruleikinn er upp-
spretta þjáningar, ringulreiðin ræður ríkjum. í slíku ástandi ættu
menn að varast að draga ályktanir um grunngerð heimsins, a.m.k.
um hvað vantar í hann.
Þegar Nietzsche segir að veruleikinn sé óreiða er hann ekki að
vísa á glundroða þess sem stendur frammi fyrir gjaldþrota hug-
myndabúi eða blindgötu vímugjafa. Skoðum þetta nánar. Hin
hefðbundna túlkun felur annars vegar í sér hugmynd um gerð
veruleikans (glundroði) og hins vegar um tilvistarlegt verkefni
einstaklingsins (að gefa veruleikanum merkingu, jafnvel þröngva
henni upp á veruleikann). Nietzsche heldur því hins vegar fram
að líf okkar sé troðfullt af merkingu, orðum, kenningum, tilgát-
um og myndmáli annarra manna. Veruleikinn blasi svo sannar-
lega ekki við sem merkingarleysa, hann sé öllu heldur falinn á
bak við ótal lög merkingar. Verkefni einstaklingsins sé því ekki
fólgið í því að gefa glundroða merkingu heldur miklu frekar í
hinu að losa sig undan merkingu og komast að óreiðunni.30 Það
að standa frammi fyrir óreiðunni er að dómi Nietzsches árangur
sjálfstæðrar hugsunar, ekki örvæntingarfullur upphafsstaður
hennar (sjá t.d. KSA 3, 251). Engu að síður má spyrja hvað blasi
við einstaklingnum þegar hann stendur frammi fyrir óreiðunni.
Og hvernig mun hann bregðast við?
Hin hefðbundna túlkun leggur þann skilning í óreiðuna að
hún sé merkingarlaust samsafn tilviljana eða hendinga. Þetta er
bölsýn, neikvæð verufræði. Verufræði Nietzsches er allt önnur
og bjartari. I þriðju bók Hinna hýru vísinda, sem hnitast eins og
áður segir að drjúgum hluta um dauða guðs, lýsir Nietzsche
óreiðunni þannig:
29 í Hinum hýru vísindum (§147) kallar Nietzsche alkóhól og kristindóm evr-
ópsku fíkniefnin. Sjá einnig Ecce Homo (KSA 6, 281).
30 Hér og víðar í þessari ritgerð hef ég orðið fyrir áhrifum frá bandaríska heim-
spekingnum Stanley Cavell. Sjá t.d. grein hans „Ending the waiting game: A
reading of Beckett’s Endgame“ í Stanley Cavell, Must we mean what we say'í
Cambridge: Cambridge University Press, 1976.