Skírnir - 01.09.1999, Page 108
354
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
hafi með undraverðum hætti komið einhverju til leiðar. En nánari
aðgæsla sýnir okkur samfelluna í náttúrunni, hvernig eitt vex sí-
fellt af öðru. Með sama hætti er óreiðan sá veruleiki sem við
getum lært að þekkja þegar við höfum þolinmæði og kjark fyrir
eigin reynslu. I einu af síðustu ritum sínum lýsir Nietzsche list-
inni að sjá:
Að læra að sjá - að venja augað við kyrrðina, við þolinmæði, við það að
leyfa hlutunum að koma upp að því; að fresta dómum, að læra að fara
kringum viðfangsefnið og skoða hvert einstakt tilfelli frá öllum hliðum
[...] að bregðast ekki strax við áreiti, en ná stjórn á öllum hvötum sem
útiloka og hamla. Að læra að sjá, eins og ég skil það, er næstum því það
sem kallað er [...] sterkur vilji: grundvallaratriðið er nákvæmlega að
„vilja“ ekki - <*<5 geta frestað ákvörðun. (KSA 6, 108-109)
Þess má víða sjá glögg merki að Nietzsche er ekki eins hrædd-
ur við óreiðuna og margir túlkendur hans. Hann ræðir um hana
sem hina fallegu óreiðu tilverunnar (KSA 3, 521), hið undraverða
óöryggi og margbreytilega ríkidæmi (KSA 3, 373), röð spurning-
armerkja, völundarhús fyrir hinn frjálsa anda og það að vera
heimilislaus í virðingarverðri merkingu þess orðs (KSA 3, 628-
31). Menn þurfa að læra að sjá óreiðuna með því að halda aftur af
hinu smásálarlega í sjálfum sér: fljótfærninni, óþolinmæðinni,
hleypidómum, hugleysinu, óttablandinni virðingu fyrir skoðun-
um annarra - öllu því sem heimtar að gefa veruleikanum merk-
ingu tafarlaust.
I einu af fyrstu ávörpum sínum segir Zaraþústra:
Sannlega segi ég ykkur: maður verður að hafa óreiðu [Cbaos] í sér til að
geta fætt af sér dansandi stjörnu. Sannlega segi ég ykkur: þið hafið enn
óreiðu í ykkur. (45)31
Von mannsins er þannig bundin óreiðunni. Hinsti maðurinn er
nafnið sem Nietzsche gefur þeim sem ekki hefur lengur í sér
óreiðu. Hann er sagður auvirðilegastur allra manna. Nietzsche
óttast ekki óreiðuna heldur þá sem ekki hafa óreiðu í sér. Stund-
um lýsir hann henni eins og forngrískir spekingar lýsa heimi hins
31 Hér hef ég breytt íslensku þýðingunni.