Skírnir - 01.09.1999, Page 113
SKÍRNIR
HLÆJANDI GUÐIR OG HELGIR MENN
359
væri að taka aftur upp fjölgyðistrú. Þetta er óraunhæft enda er
ekki gott að segja hvernig fjölgyðistrú sem kæmi á eftir kristinni
eingyðistrú liti út. Væri slík trú, slíkur uppvakningur, ekki sögu-
leg skekkja ef hún væri á annað borð möguleg?
Onnur leið er að hafna háleitum fyrirmyndum, hetjum, stór-
mennum, snillingum og mikilmennum. Þetta er ekki leið
Nietzsches. Hann talar mjög opinskátt um mikilvægi fyrirmynda
fyrir eigið líf, hans eigin þroska en einnig almennt í þroskapæl-
ingum sínum (sjá t.d. KSA 1, 337-427). Þær hreyfi við einstak-
lingnum, efli honum þor til að standa á eigin fótum, verða sá sem
hann er. Öfugt við hetjudýrkendur verður Nietzsche hins vegar
mjög tíðrætt um hættuna sem felst í háleitum fyrirmyndum,
hvernig þær geta rænt okkur sjálfum okkur, gert okkur að eftir-
líkingum, eytt óreiðunni í okkur. Hugmynd Nietzsches hér er
ekki sú að háleitar fyrirmyndir hafi kosti og galla sem þurfi að
vega og meta heldur að þær hafi tilhneigingu til að snúast upp í
andstæðu sína: deyja, verða að voðalegum skuggum. Frelsarar
manna geta hneppt þá í andlega fjötra.
I ljósi þessa áhyggjuefnis Nietzsches er ekki að undra hversu
flókin og margræð tengsl Zaraþústru við eigin lærisveina eru.
Fyrstu bók Svo nuelti Zaraþústra lýkur á langri ræðu sem Zara-
þústra flytur lærisveinum sínum, hugleiðingu um hættur þess að
vera og vera ekki lærisveinn:
Ég ræð ykkur heilt: farið burt frá mér og varið ykkur á Zaraþústru!
[...] Illa launar maður kennara sínum með því að halda áfram að vera
aðeins lærisveinn. [...]
Þið dýrkið mig; en hvað ef sá dagur kæmi að skurðgoð ykkar félli af
stalli? Varið ykkur að kremjast ekki til bana undir myndastyttu! [...]
Þið höfðuð enn ekki leitað sjálfra ykkar: og þá funduð þið mig. [...]
Nú bið ég ykkur að týna mér og finna ykkur sjálfa; og fyrr en þið
hafið allir saman afneitað mér, mun ég ekki snúa aftur til ykkar. (97)
Zaraþústra varar lærisveinana við sjálfum sér, hann gæti orðið sú
myndastytta sem kremdi þá til bana. En hann segir líka að ef þeir
týni honum, finni sjálfa sig og afneiti honum, þá fyrst muni hann
snúa aftur til þeirra. Þessari ræðu lýkur svo á orðunum: