Skírnir - 01.09.1999, Page 135
SKÍRNIR MERLÍNUSSPÁ OG VÖLUSPÁ í SÖGULEGU SAMHENGI 381
II. Merlínusspá: Gerð, bygging, efni og tímasetning
Miðað við latneska frumtextann koma Spádómar Merlínusar
fram í dálítið einkennilegri mynd í Merlínusspá á íslensku.
Merlínusspá er aðeins varðveitt í einu handriti, Hauksbók, frá því
snemma á 14. öld. Aður en spáin hefst í handritinu segir þar í
Breta sögum:
Síðan sagði Merlínus langt fram um konungaævi og mörg önnur stórtíð-
indi þau er enn eru eigi fram komin. Hér eftir hefur Gunnlaugur munk-
ur ort kvæði það er heitir Merlínusspá.8
I annarri gerð Breta sagna á íslensku, sem ekki hefur kvæðið eins
og Hauksbók, segir svo á sama stað í sögunum:
Síðan sagði Merlínus langt fram um konungaævi sem eftir er mynt9 hið
stærsta af kvæði því er Merlínsspá heitir er orti Gunnlaugur munkur
Leifsson og kunna margir menn það kvæði. En er Merlín lauk spá sinni
þá lofaði konungur mjög fróðleik hans og vísdóm. Sú spá hefur oft síðan
af hinum vitrustu mönnum á Englandi rannsökuð verið og finnst æ
nokkuð þess í er miklum rökum þykir sæta.10
Samkvæmt þessu er þýðandi spádómanna Gunnlaugur Leifs-
son (d. 1218 eða 1219), mikilsháttar klerkur norðanlands og
munkur á Þingeyrum. Hann vann að helgi Þorláks biskups Þór-
hallssonar með Páli Jónssyni Skálholtsbiskupi rétt í kringum
1200 og hefur haft orð á sér sem lærdómsmaður.* 11 Gunnlaugur
fékkst við að rita sögur af Jóni helga Hólabiskupi, Ólafi Tryggva-
syni kristniboðskonungi, Þorvaldi víðförla, hinum norðlenska
kristniboða, og kristnitöku á Islandi.12 Þá hefur Gunnlaugur,
samkvæmt Guðmundar sögu Arngríms, samið sögu heilags
Ambrosiusar en á henni vita menn nú ekki frekari deili.13
8 Annaler 1849, 12. Hauksbók (1892-96) 271.
9 Orðalagið minnir á Merlínusspá II, 94.
10 Annalerl849, 12-13.
11 Byskupa sögur (1978) 400.
12 Sveinbjörn Rafnsson (1974) 68-84 og Sveinbjörn Rafnsson (1977).
13 Biskupa sögur III (1953) 275. Hér má geta þess að spámaðurinn Merlínus var
einnig nefndur Ambrosius, sbr. Merlínusspá II, 9.