Skírnir - 01.09.1999, Page 137
SKÍRNIR MERLÍNUSSPÁ OG VÖLUSPÁ í SÖGULEGU SAMHENGI 383
ið sér útbreiðslu eða hefð og þýðandinn því haldið kvæðisform-
inu til streitu.
En hvernig stendur á því að þessir spádómar voru þýddir á ís-
lensku? Og hvers vegna er fyrst tekið til við að þýða síðari hluta
spádómanna og fyrri hlutinn ekki þýddur fyrr en nokkru síðar?
Skýringa á tvískiptingu íslensku þýðingarinnar á Prophetie Merl-
ini er einkum að leita á tveimur sviðum, annars vegar í samtíð og
aðstæðum þýðandans og hins vegar í efni og boðskap spádóm-
anna og þýðingar þeirra.
Þegar er komið fram hér á undan að nokkurs hirðuleysis virð-
ist gæta í Merlínusspá I um heildarsvip þess verks sem þýtt er úr
og enn fremur að þýðandinn, Gunnlaugur Leifsson munkur, sé
kirkjulega virkur rithöfundur og umbótamaður. Af þessum sök-
um gæti verið að Merlínusspá I sé gerð að undirlagi kirkjuhöfð-
ingja, ábóta eða biskups, sé nokkurs konar pöntunarverkefni eða
ákvæðisverk, þar sem þýðanda er fenginn kafli á latínu með þörfu
og æskilegu innihaldi til að snúa í íslenskt kvæði.
Erfitt er að sjá hvers vegna er tekið til við að þýða spádómana
nákvæmlega á þessum stað í textanum. Margt er eftir að athuga í
umfangsmikilli handritageymd hinna latnesku Prophetie Merlini.
Meðal þeirra athugunarefna eru kaflaheiti og kaflaskil. I gömlum
útgáfum af Historia regum Britannie, eða allt frá fyrstu prentút-
gáfu Hieronymusar Commelinusar í Heidelberg 1587, hefur
gjarnan verið höfð tólf bóka skipting á verkinu, sem þó á sér ekki
stoð í öllum handritum. Samkvæmt þeirri skiptingu verða einmitt
kaflaskil á sama stað og skil verða milli hinnar íslensku Merlínus-
spár II og Merlínusspár I, þ.e. við kafla VII.ii. Eftir kaflaskiptingu
E. Farals, sem nú er oftast notuð, verða þau við kafla 116 (31).15
Kaflaskipting Commelinusar á þessum stað er í sumum miðalda-
handritum16 og hefur svo getað verið í handritinu sem Gunnlaug-
ur þýddi eftir.
En hver er heildarstefnan í hinum tveimur kvæðum Merlínus-
spár? Er einhver munur á kvæðunum eða mismunandi áherslur,
15 Sjá nánar um kaflaskiptingar þessar, The Historia Regum Britannie (1984) lii-
liv og töflu 172-74.
16 Sbr. The Historia Regum Britannie (1988) 107 nm.