Skírnir - 01.09.1999, Side 141
SKÍRNIR MERLÍNUSSPÁ OG VÖLUSPÁ í SÖGULEGU SAMHENGI 387
ur (I, 11), viður hinn danski (I, 15),22 Cimbria (I, 16), Kalater-
ioskógur (I, 24), Menelogia (II, 30), Venedocia (II, 53), Peritonis
á (II, 63), Sabrinus ránar vegur (II, 89), Óskar á (II, 89) o.s.frv.
Kunnátta þýðandans og þekking á enskri landafræði og ör-
nefnum er mjög mikil og merkileg sé meðferð örnefnanna borin
saman við latneska frumtextann. Þannig virðist þýðing á „greges
Albanorum" (þ.e. hjarðir Skota) í Merlínusspá I, 47 með „Norð-
humru hjarðir“ fela í sér þekkingu á 35. kafla Historia regum
Britannie á latínu: „Northanhimbriam ab Humbro usque ad
Katanesiam." Þó er Albania þýtt sem Skotland í Merlínusspá II,
64. „Borg Kantara“ í Merlínusspá II, 30 er þýðing á „Dorobern-
ia“ og felur í sér þekkingu á 98. kafla í frumtexta Breta sagna:
„Dorobernie, que nunc Cantuaria dicitur." Orðið „Britannia" í
Merlínusspá II, 71 kemur ekki fyrir í frumtexta spádómanna en
felur í sér þekkingu á 21. kafla frumtexta Breta sagna: „Brutus de
nomine suo insulam Britoniam appellat." I sömu vísu, Merlínus-
spá II, 71, kemur fyrir orðið „Anglia“ um England, sem er alls
ekki notað í frumtexta spádómanna eða Breta sagna.23 Þessi
dæmi, að undanteknu hinu síðastnefnda, benda til þess að þýð-
andinn hafi haft aðgang að Historia regum Britannie bæði þegar
fyrra kvæðið var ort og hið síðara.
Staðþekking þýðandans og landafræði nær þó langt út fyrir
frumtexta Breta sagna. I hinni makalausu vísu, Merlínusspá II, 25,
er talað um „Út-Skota“ (Orkneyinga?), „Noregssíðu" og „Norð-
ur-Dani“ (Islendinga?) en ekkert samsvarandi er í frumtextanum,
þar er aðeins talað um „Insule oceani“. Eins kemur þýðandinn á
óvart í Merlínusspá I, 26, þar sem talað er um „vestur í dal [...]
Galabes“. Ekkert stendur í latnesku frumgerðinni um vesturátt á
þessum stað en þó hafa síðari tíma menn talið að Galabesdalur
hafi verið í Wales á Bretlandi vestanverðu.24 Getur þá staðþekk-
ing íslensks þýðanda virst næstum með ólíkindum. Hún hefur þó
22 Vel getur verið að þýðingin á örnefninu „Daneum nemus“ í „viður hinn
danski" sýni að þýðandinn hafi ekki skilið það sem örnefni eða staðarnafn.
Hitt er ljóst að hann heimfærir orðin til norrænna þjóða.
23 Tatlock (1950) 19.
24 Tatlock (1950) 74.