Skírnir - 01.09.1999, Síða 145
SKÍRNIR MERLÍNUSSPÁ OG VÖLUSPÁ ISÖGULEGU SAMHENGI 391
Með þessu er boðskapur og hneigð síðara kvæðisins, Merlín-
usspár II, ljós: það er málsvörn fyrir fyrra kvæðið, Merlínusspá I,
og spádóma yfirleitt, með skírskotun til Biblíunnar og samtíma-
viðburða. Aðalatriðið virðist vera að vekja trú á að eitthvað sé til í
spádómunum, bæði í þessu kvæði og hinu fyrra. Af þessu sést að
þýðing Merlínusspár II virðist einnig vera innlegg í deilur sem
varða boðskap kirkjunnar manna á Islandi á ofanverðri 12. öld,
en svo er að sjá sem einhverjir hafi efast um sannleiksgildi og
boðskap Merlínusspár I.
Þar sem vísað er til enskrar pólitíkur í samtíma Gunnlaugs í
Merlínusspá II, 102, virðist skírskotað til samskipta Englands-
konunga og konunga í Wales.28 Vísuna „Varð sú hin enska, ætt
fyr stundu, veldis missa, nú er valskur konungur [...]“, má túlka
eitthvað á þessa leið: Fyrir skömmu missti enska konungsættin
veldi sitt, nú ríkir velskur konungur, þó eru siðir þeirra (þ.e. Eng-
lendinga) ekki farnir úr landinu en ekki eignaðist hún (þ.e. enska
konungsættin) heldur Bretland (þ.e. Wales) með hernaði. Líklega
er hér vísað til uppreisnar í Wales árið 1165 gegn ensk-nor-
mönnskum yfirráðum. Hinrik II Englandskonungur réð fjöldann
allan af málaliðum, m.a. danskan flota frá Dyflinni, til herfarar
gegn velskum höfðingjum til að kveða niður uppreisnina en varð
að lúta í lægra haldi. Eftir það ríktu velskir konungar í Wales
langt fram á 13. öld og sóru sumir enskum konungum trúnað-
areiða.29 Þessi vísa í Merlínusspá II veitir þannig tímamark (term-
inus post quem)\ þýðing kvæðisins er yngri en 1165. Hún er þó
ekki mjög miklu yngri, sbr. „fyr stundu" í vísunni.
Þungamiðja boðskaparins í Merlínusspárkvæðunum liggur í
Merlínusspá I, siðferðilegum áminningum þess ásamt útlegging-
um á lastafullu líferni manna, enskra og danskra, sem af guðs
hálfu verði svarað með samfélagslegum ósköpum og furðulegum
fyrirbærum í náttúrufari. Heimsslit muni verða. Merlínusspá II
er, eins og áður sagði, málsvörn fyrir fyrra kvæðið og þar gætir
ekki heimsslitafræðilegra túlkana fyrra kvæðisins. Þannig liggur
beint við að setja Merlínusspárkvæðin inn í sögulegt samhengi
28 Þannig hefur Jón Sigurðsson einnig skilið kvæðið, sbr. Annaler 1849, 75 nm.
29 Lloyd (1948) 513-22, sbr. Poole (1955) 293-301.