Skírnir - 01.09.1999, Page 146
392
SVEINBJÖRN RAFNSSON
SKÍRNIR
kirkjulegrar baráttu á íslandi seint á 12. öld, baráttu Þorláks Þór-
hallssonar Skálholtsbiskups gegn kvennafari og siðleysi íslenskra
veraldarhöfðingja. Tengsl Þorláks við Lincoln á Englandi eru vel
kunn af sögu hans, þar stundaði Þorlákur nám á sjötta áratug
tólftu aldar, fáeinum árum eftir dauða Alexanders biskups sem
spádómarnir, Prophetie Merlini, voru tileinkaðir í upphafi.
III. Völuspá: Gerðir, hygging og efni
„Mest hafa menn kvalið sig á Völuspá“
Benedikt Gröndal
Völuspá er varðveitt í heild í tveimur gerðum, í Konungsbók
(Codex Regius, GKS 2365 4to) og í Hauksbók (AM 544 4to).
Auk þess eru varðveitt brot úr kvæðinu í Snorra Eddu. Heilu
gerðirnar tvær eru svolítið mismunandi en þó er alveg ljóst að
þetta er sama kvæðið.
I Snorra Eddu sést að Snorri hefur bútað kvæðið niður að vild
sinni, sleppt úr því og ef til vill hnikað til orðalagi til að það félli
vel að túlkun hans í Gylfaginningu. En þó að gerð kvæðisins í
Snorra Eddu sé þannig óheil og umturnuð, má sjá að hún er í
sumum atriðum líkari Konungsbók og í öðrum atriðum líkari
Hauksbók.
Þessar þrjár gerðir Völuspár í handritunum eru því svo ólíkar
í smáatriðum að þær geta ekki, samkvæmt hefðbundinni texta-
gagnrýni, talist vera komnar milliliðalaust frá sama forriti. Óþarfi
er þó að túlka þennan mun þannig að hann hljóti að stafa af því
að kvæðið hafi gengið í munnlegri geymd.30 Margar aðrar skýr-
ingar koma til greina, eins og viljandi eða óviljandi breytingar af-
ritara, óskýr eða skert forrit. Ógerlegt virðist að öðlast vissu í
þessum efnum.
Gera verður ráð fyrir því að handan varðveittu kvæðisgerð-
anna hafi einhvers staðar verið ein frumgerð kvæðisins eins og
höfundur gekk frá því, þó að nú sé þess ekki kostur að komast
nákvæmlega að því hvernig sú frumgerð var.
30 Jón Helgason heldur munnlegri geymd mjög fram. Jón Helgason (1952) 28 og
Jón Helgason (1962) VI og VIII.