Skírnir - 01.09.1999, Page 148
394
SVEINBJÖRN RAFNSSON
SKÍRNIR
Líkindi gerðanna eru þó miklu meiri og koma meðal annars fram
í þessu:
1. Upphaf, 20 vísur, og endir, 9 vísur, eru nær orðrétt eins.
2. Orðalag einstakra vísna er í aðalatriðum eins.
3. Stefin eru hin sömu.
Niðurskipan eða röð stefjabálkanna um mitt kvæðið er mjög
mismunandi í gerðunum. Vilji menn lesa einhvern söguþráð eða
atburðarás út úr kvæðinu fyrir utan upphaf og endi hlýtur sú at-
burðarás að verða ólík eftir því hvorri gerð kvæðisins er fylgt. Þar
á ofan bætist að ekki verður auðveldlega séð að neitt eiginlegt frá-
sagnarsamhengi orsaka og afleiðinga sé milli efnisins í stefjabálk-
unum um miðbik kvæðisins á hvora gerðina sem er litið.31 Miklu
fremur virðist sem í hverjum stefjabálki sé brugðið upp myndum
og borinn fram fróðleikur sem stendur í litlu eða engu samhengi
við efni annarra stefjabálka og jafnvel í mótsögn við þá, eins og
þegar mismunandi fólkvíg eru talin hafa orðið fyrst í heimi, hvort
í sínum stefjabálkinum.
Sem dæmi um erfiðleikana við túlkun á samhengi í textanum
má taka meðferð fræðimanna á dvergatali og valkyrjutali í kvæð-
inu. Dvergatal er í öllum gerðum kvæðisins en þó telja nær allir
fræðimenn að það sé ungt innskot (interpolation), það rjúfi sam-
hengi. I textanum sem Konungsbók hefur umfram Hauksbók er
valkyrjutal en það er hins vegar sjaldnast talið ungt innskot, þó
að það rjúfi samhengi engu síður en dvergatalið og standi aðeins í
annarri af heilu gerðum kvæðisins. Einnig má líta á kvæðistexta
31 Benedikt Gröndal (1873) 9: „[...] menn hafa hópum saman lagt höfuðin á sér í
bleyti til þess að raða versunum niður og finna „það rétta samhengi", án þess
að hugsa um eða geta séð, að þar er ekkert samhengi og hefir aldrei verið;
þvert á móti hefir höfundur kvæðisins ekki skilið sjálfur neitt í kvæðinu, þó
hann aldrei nema kunni að hafa bygt á eldgömlum átrúnaði, eins og sjálfsagt
er; þar er margt djúpt og vel hugsað og stórkostlegt, en það er ekki að hugsa
til að fá neina órjúfandi heild í kvæðið. Það er að sumu leyti alveg óskiljanlegt
dimmviðri, víða þannig sett með vilja (mystificatio) [...].“
Halldór Laxness (1971) 34-35: „Textinn er það sundurlaus að ekki verður
fundið samstætt kerfi að baki, hvorki guðfræði goðafræði siðfræði né heim-
speki, oft ekki heil brú, aðeins fljótandi þjóðsagnir búnar hádramatísku gervi
- til skemtunar eða hvað?“