Skírnir - 01.09.1999, Page 152
398
SVEINBJÖRN RAFNSSON
SKÍRNIR
Hinar fornu hugmyndir um sibyllur fólu m.a. í sér að sibyll-
urnar voru taldar ævagamlar, miklu eldri en venjulegir menn gátu
orðið, og að þær sáu geysilangt bæði aftur og fram í tímann. Um
eðli þeirra og æði fjölluðu m.a. fræg latínuskáld fornaldar sem
mikið voru lesin á miðöldum, fyrst og fremst Virgill (Aen. VI, 46
og áfram) og Ovidíus (Metam. XIV, 107). Skáldið Lucanus hefur
einnig í kvæði lýsingu á spákonu eða norn, hinni ægilegu Erichto,
sem tekur um sumt svip af sibyllum Virgils og Ovidíusar. Þetta
kvæði Lucanusar, Pharsalia, var mikið lesið á miðöldum og er til
að hluta í íslenskri miðaldaþýðingu í Rómverja sögum.
I síðari tíma Völuspárrannsóknum er oft vitnað til þeirra
skoðana Bangs biskups frá 1879 að Völuspá þiggi efni frá gyðing-
legum og kristnum sibyllínskum textum síðfornaldar.38 Við það
má gera athugasemdir. I fyrsta lagi tókst Bang ekki að sýna fram
á að Völuspá hefði fengið neitt beint frá hinum grísku sibylluspá-
dómum (Oracula Sibyllina), og í öðru lagi höfðu Guðmundur
Andrésson og aðrir 17. aldarmenn fyrir löngu bent á almenn lík-
indi grísk-rómverskra sibylla og völu Völuspár. Það eru hin al-
mennu líkindi völu Völuspár við sibyllur grísk-rómverskrar
fornaldar sem skipta mestu máli og helstu heimildir um hinar
fornu sibyllur höfðu latínufróðir miðaldamenn í kvæðum Virgils
og Ovidíusar.
En áður en farið verður út í kvæði hinna heiðnu latínuskálda
er rétt að víkja nokkrum orðum að þeirri þekkingu á fornum si-
byllum sem Islendingar á miðöldum höfðu að öðru leyti. Þetta
efni tók M. Overgaard til nokkurrar athugunar. Hún benti á að í
sögu af krosstré Krists í Hauksbók, þ.e. snemma á 14. öld, sé
drottningin af Saba talin heita Sibilla. Þá er frá því sagt í Snorra
Eddu að Þór hafi fundið í norðurálfu heims „spákonu þá er Síbíl
hét er vér köllum Sif, og fékk hennar“. Þetta er texti frá því
snemma á 13. öld. Þá benti Overgaard á að í Katrínar sögu sé
minnst á „Sibille spakonu" og aðra spekinga en það rit er frá 14.
öld.39 Til viðbótar þessu má nefna að „Sibilla spakona" er einnig í
38 Bang (1879).
39 The History of the Cross-Tree (1968) lvii-lviii, sjá einnig Rzach (1923) 2173-75
og Edda Islandorum (1977) h2.