Skírnir - 01.09.1999, Page 156
402
SVEINBJÖRN RAFNSSON
SKÍRNIR
V. Nokkur Eddukvœbaviðhorf á 19. og 20. öld
I lok 18. og byrjun 19. aldar vaknaði mikill fræðilegur áhugi á
Eddukvæðum undir merkjum rómantíkurinnar. I Þýskalandi
kom fram áhugi hjá mönnum eins og Herder, Gráter og Grimm.
I Danmörku og á Islandi hjá Rask, Sveinbirni Egilssyni og Finni
Magnússyni. Þegar leið á 19. öldina urðu tengsl þessa áhuga við
vaknandi þjóðernishyggju og pólitík æ skýrari, en vitanlega stóð
hann einnig djúpum rótum í annarri þróun menningar og andlegs
lífs í álfunni.
Benedikt Gröndal, sonur Sveinbjarnar Egilssonar, hins mikla
útgefanda og þýðanda íslenskra fornrita, var vinur og aðdáandi
Jóns Sigurðssonar, sem einnig var mikilvirkur útgefandi fornrita,
m.a. Snorra-Eddu og Merlínusspár. Benedikt ritaði um Eddu-
kvæði bæði í Antiquarisk Tidsskrift árið 1864 og í tímaritið Gefn
1872 og 1873.46 Hann hafði menntun og þekkingu langt umfram
marga samtíðarmenn sína sem um Eddukvæði skrifuðu. Varla
neinn þeirra hafði jafnmikla yfirsýn og þekkingu á íslensku máli,
kveðskap og sögu. I þekkingu á forngrískum textum, latneskum
kveðskap og ritum kirkjufeðra stóðu fáir Benedikt á sporði.
Benedikt ritaði fyrstu grein sína um Eddukvæðin á dönsku árið
1864 og nefnist hún „Ströbemærkninger". Af þessari grein er vel
ljóst að handan Eddukvæðarannsókna á 19. öld liggja ríkar póli-
tískar og þjóðernislegar hneigðir. Grein Benedikts er öðrum
þræði á hefðbundna íslenska vísu andsvar gegn níðskrifum er-
lendra ferðamanna um Island en sviðið er víðara og nær til fræði-
manna sem fjallað hafa um íslenskt efni. Fræðimenn eins og Jacob
Grimm og Theodor Möbius fá herfilega útreið hjá Benedikt fyrir
að lítilsvirða Islendinga, en Rasmus Rask og Konrad Maurer eru
lofaðir fyrir skilning á íslenskri tungu og menningu.
Athugasemdir Benedikts í greininni um heimkynni Eddu-
kvæða eru athyglisverðar og má segja að með þeim skerpist fyrir
alvöru umræðan um þau mál. Hann segir (í þýðingu):
46 Hér má taka eftir útgáfutíma þessara greina, hin fyrsta kom út þegar Slésvík-
urstríð Dana og Þjóðverja höfðu staðið, og hinar síðari eftir fransk-þýska
stríðið. Benedikt fylgdist vel með stjórnmálum, eins og merkja má af
sjálfsævisögu hans Dœgradvöl.