Skírnir - 01.09.1999, Page 207
SKÍRNIR LANDIÐ, ÞJÓÐIN, TUNGAN - OG FRÆÐIN
453
verið að gerast á Balkanskaga við klofning Júgóslavíu. Þar hafa
verið að myndast sjálfstæð ríki, og sérlega athyglisverður er að-
skilnaður Serba og Króata. Þessar frændþjóðir greina sig hvor frá
annarri á grundvelli trúarbragða og rithefðar en tala serbó-króat-
ísku, sem málfræðilega er venjulega talið eitt tungumál. Þegar rík-
in slitu samvistir og Króatar urðu sjálfstæðir, var eitt af því fyrsta
sem þeir gerðu að hreinsa tungu sína af „serbismum", sem þeir
nefndu svo, og á sama hátt hafa Serbar viljað losa sitt mál við
„króatisma“. Það er hluti af hinu pólitíska sjálfstæði að hafa sjálf-
stæða tungu, sem ekki þiggur neitt að láni frá annarri tungu. Þetta
minnir auðvitað mjög á þann þátt í hreintungustefnu Islendinga á
19. og 20. öld, sem sneri að því að hreinsa tunguna af dönsku-
slettum í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna.
Annað nýlegt dæmi er það að meðal svartra Bandaríkjamanna
hafa komið upp raddir um að gera þá ensku sem þeir tala að sér-
stöku tungumáli, ebonics, sem e.t.v. mætti kalla íbeholtsku (enn
hreintungulegri þýðing væri svartviðarmál!) á íslensku. Mállýska
blökkumanna í Bandaríkjunum hefur viss einkenni sem skilja
hana frá annarri ensku sem þar er töluð, og munurinn er ekki
meiri en svo að hingað til hefur mönnum þótt eðlilegt að tala um
þetta sem enska mállýsku. En rétt eins og Norðmenn vildu að sú
danska sem notuð var í Noregi yrði önnur en sú sem notuð var í
Danmörku vilja sumir blökkumenn gera þessa mállýsku að sér-
stöku tungumáli. Þetta telja þeir að auki sjálfsvirðingu svartra og
muni bæta stöðu þeirra, og betra sé að tala um mállýskuna sem
sérstakt tungumál en sem ófínt afbrigði af ensku. Það sem bak við
stendur í þessum dæmum er pólitík og þau sýna að stjórnmál geta
haft áhrif á málsöguna, ekki síður en málsagan á stjórnmálasög-
una, þótt þessi áhrif séu ekki alltaf jafn heppileg eða jákvæð.
Tungur, trúarbrögð og bókmenntir
En stjórnmál eru ekki einu samfélagsþættir sem hafa áhrif á mál-
söguna. Trúarbrögð og trúarstofnanir geta gegnt svipuðu hlut-
verki og ríki. Hebreska er mál Gamla testamentisins, og hefur
verið endurvakin sem opinbert mál í Israel, klassísk arabíska er
málið á Kóraninum og kirkjuslavneska var fyrsta slavneska málið