Skírnir - 01.09.1999, Page 208
454
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
sem ritað var, þegar Biblían var þýdd. Notkun tungumáls með
þessum hætti í trúarritum hefur svipuð áhrif og notkun þess sem
opinbert ríkismál. Til verður staðall, eins konar fyrirmynd, eða
viðmiðun, sem heldur saman samfélögum og hópum mállýskna
sem miða sig við staðalinn. Það er jafnan talið hafa ráðið miklu
um íslenska málsögu að Biblían var þýdd á 16. öld. I Noregi, þar
sem þetta var ekki gert, varð þróunin önnur og ítök dönskunnar
urðu mun meiri, eins og minnst hefur verið á.
A ritöld hefur það að sjálfsögðu úrslitaþýðingu fyrir tungu-
mál hvort það er yfirleitt ritmál eða ekki. Tungumál sem ekki er
til á prenti má sín lítils sem staðall. Og e.t.v. má heimfæra þetta
upp á nútímann og segja að tungumál sem ekki er til í upplýs-
ingatæknimiðlum nútímans eigi ekki framtíð fyrir sér. Islenska
varð ritmál fyrr en margar aðrar Evróputungur, og samhengið í
málþróuninni, hin mikla íhaldssemi og einsleitni miðað við
frændtungurnar, á rætur að rekja til bókmenntanna fyrst og
fremst. Þáttur fornbókmenntanna í mótun og viðhaldi íslenskrar
tungu á síðari öldum verður seint ofmetinn. Mál fornbókmennt-
anna er fyrirmyndin að staðli íslensks nútímamáls. Hreintungu-
stefnan sækir þangað innblástur sinn, og í rauninni má halda því
fram með réttu að Snorri Sturluson og Halldór Kiljan Laxness
hafi skrifað á sama tungumáli, þ.e. að samhengið í íslensku ritmáli
sé óslitið en ekki markað af tímabilaskiptum eins og í ensku máli,
sem greinist í fornensku, miðensku og nútímaensku. Sá ritstaðall
sem við búum við varð til á 12. og 13. öld, svo að íslenska er með
elstu lifandi ritmálum heimsins.
Rétt mál og rangt
Þeir þættir sem hér hafa verið nefndir leiða til stöðlunar, en stöðl-
un fylgja hugmyndir um rétt mál og rangt, gott og miður gott.
Lagatextar og opinber fyrirmæli eru „rétt“ í einhverjum skilningi;
trúartextar eru réttir, og bókmenntaformin skapa formúlur og
staðla sem skáldin og lesendurnir ganga út frá. Þótt stöðlun-
aráhrif bókmenntanna séu e.t.v. ekki alveg jafnaugljós og áhrif
lagatextanna, hafa þær eigi að síður mjög mikil áhrif. Bókmennt-