Skírnir - 01.09.1999, Page 218
464
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
mál má hér nefna allskemmtilega ritdeilu sem fram fór í Tímariti
Máls og menningar árið 1997 milli Ólafs Halldórssonar og Böðv-
ars Guðmundssonar.12 Sá fyrrnefndi amast við dönskuslettum í
bókmenntaviðtali, en sá síðarnefndi ber Ólafi á brýn að vera mál-
lögreglumaður og finnur hreintungustefnunni ýmislegt til for-
áttu. Böðvar vill taka danska málstefnu til fyrirmyndar, að því er
virðist. Meðal þess sem hann nefnir er að nýyrðasmíð leiði til
þess að orð verði allt of löng, og að nær sé að stytta þau. Hann
heldur því fram að „rassmiklar fallendingar íslenskunnar séu til
engra bóta, enda [séum] við löngu hætt að treysta þeim og gríp-
um meir og meir til forsetninga ásamt fallendingum, erum bæði
með belti og axlabönd, eins og Danir segja“. Hann telur að orð
séu því betri sem þau eru styttri og mælir með fegrandi hljóð-
breytingum og styttingum. Hér er Böðvar Guðmundsson í hlut-
verki „reiðareksmannsins“ og Ólafur Halldórsson í hlutverki
„málveirufræðingsins“.
Þegar á heildina er litið sýnist mér að þrátt fyrir ýmsar upp-
hrópanir um frjálslyndi, ekki síst meðal fræðimanna og mennta-
manna, hafi hér ríkt samstaða um grundvallaratriði, hreintungu-
stefnuna og íhaldssemina sem henni fylgir, og spurningin er þá
hvort ástæða sé til að breyta þessari grundvallarstefnu, t.a.m. í
ljósi þeirrar alþjóðahyggju sem virðist ríkjandi. Að svo miklu
leyti sem þetta hefur verið rætt, hafa raddir sem mæla með breyt-
ingu á stefnunni hvorki verið háværar né markvissar. Að vísu eru
þeir til sem telja það óþarfa fyrirhöfn t.a.m. að þýða tölvuforrit,
og tímaeyðslu og kostnaðarauka að setja íslenskt tal eða texta við
erlent sjónvarpsefni og kvikmyndir. Spurningin er hvort þessi
tregða innflytjenda (af ótta við að gera varninginn dýrari eða
missa spón úr aski sínum) verður til þess að meira og meira af ís-
lensku mannlífi fer fram á ensku. Og þá vakna kannski spurning-
ar um hvort það eru hömlur á viðskiptafrelsi að krefjast þess að
efni ljósvakamiðla sé á íslensku eða að þessir miðlar styrki ís-
12 Ólafur Halldórsson: „íslenska með útlendu kryddi“. Tímarit Máls og
menningar 2 (1997), bls. 94-98; Böðvar Guðmundsson: „Gamanbréf til góð-
kunningja míns Ólafs Halldórssonar". Tímarit Máls og menningar 3 (1997),
bls. 94-106; Ólafur Halldórsson: „Lítið svar við löngu bréfi“. Tímarit Máls og
menningar 4 (1997), bls. 107-11.