Skírnir - 01.09.1999, Side 236
482
JÓN KARL HELGASON
SKÍRNIR
f sjálfu sér er einkennilegt að Ragna hefji nokkra kafla í skáldsögu
sinni á sömu lýsingu. Hugmyndin virðist vera að draga fram þann blæ-
brigðamun sem er á milli þess að koma á sama stað innan borgarinnar á
ólíkum tímum sólarhrings. Torgið sjálft breytist ekki, en að morgni dags
opnast dyr á einu húsinu og köttur hleypur mjálmandi út, um eftirmið-
daginn rýfur lítil flugvél kyrrðina, og um miðnætti liggur í loftinu „ilmur
af kólnandi malbiki, fjarlægum bílaútblæstri, trjám og grasi sem döggvast
[...]. Einhversstaðar flautar bíll og mótorhjól er ræst. Nafn er kallað, aft-
ur og aftur“ (s. 163). Með því að endurprenta einn þessara kafla í gráu og
svörtu er ennfremur vakin athygli á því að ásýnd borgarinnar, rétt eins
og merking prentuðu orðanna á blaðsíðunni, er breytileg eftir því hver
horfir, hvaða smáatriði vekja athygli okkar og í hvaða röð við skynjum.
Borg var fyrsta skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur, en hún hafði áður
haslað sér völl sem ljóðskáld, höfundur smásagna og myndlistarmaður.
Sögusvið bókarinnar er ónefnt þéttbýli sem virðist standa á sömu slóð-
um og Reykjavík nútímans en er stærra og alþjóðlegra í sniðum. Það
rennur til dæmis fljót í gegnum miðja borgina og umhverfis hana er gam-
all múr: „Að borgarmúrnum utanverðum liggur síki á allar hliðar. Þrjár
brýr liggja inn í borgina, að upprunalegum borgarhliðum. Tvær þeirra
hafa verið endurbyggðar, en elsta brúin, frá tímum Rómverja, liggur að
aðalhliði borgarinnar" (s. 21). Inn á þetta sögusvið leiðir Ragna þrjár
persónur, Ullu, Loga og Vöku, en líkt og Kristján B. Jónasson hefur
bent á í ritdómi um Borg verður persónuleiki hvers þeirra um sig til í
samspili við umhverfið, „þær eru allar svar við rýminu".1
Ulla tekur þéttbýlinu opnum örmum enda lítur hún á það sem sitt
náttúrulega umhverfi og á sjálfa sig sem frumu í borgarlíkamanum:
Borgin er lifandi. Kraftmikil, óþreytandi, risavaxinn líkami sem Ulla
skynjar út í fingurgóma. Hlutar hans óaðskiljanlegir, innra skipulag
og hegðun miðast stöðugt við að halda fullkomnu jafnvægi. Hún
andar í takt við þennan líkama. Steinlögð stéttin er hluti af fótum
hennar og umferðargnýrinn róandi. Hún fylgir öllu eftir með augun-
um, ekkert á götunni fer framhjá henni. (s. 16)
Logi er einnig ómengað borgarbarn en ólíkt Ullu, sem starfar í álverk-
smiðju skammt utan borgarmarkanna, lifir hann og hrærist í sýndarveru-
leika auglýsinga. Ekki er nóg með að hann starfi við auglýsingagerð
heldur semur hann auglýsingar fyrir sjálfan sig í tómstundum, líkt og
aðrir semja ljóð. Borgin er því tjáningarmiðill Loga; auglýsingarnar sem
hann býr til blasa við hvert sem litið er, ýmist á skiltum eða strætisvögn-
um.
1 Kristján B. Jónasson. „Borg úr lofti“. Tímarit Máls og menningar 55/4 (1994),
s. 125.