Skírnir - 01.09.1999, Side 237
SKÍRNIR
,OG BORGIN TEKUR MIG'
483
Vaka, þriðja persóna sögunnar, er ekki fædd eða uppalin í borginni
og þarf því að leggja sig fram til að samlagast umhverfinu: „Lykt af kaffi,
frönskum kartöflum, bílaútblæstri, kínverskum skyndibitum, rusli,
rakspírum og ilmvötnum, allt þetta blandast saman. Vaka andar djúpt, til
að renna saman við óstöðvandi heild borgarinnar" (s. 36-37). Hún starfar
sem þýðandi á Ríkissjónvarpinu og er upptekin af orðum og uppruna
þeirra, en hún er ekki síður upptekin af borgum og einkennum þeirra.
Einn daginn, þegar hún stendur við strauborðið, fer hún í þýðingarleik
sem hún hefur fundið upp fyrir sjálfa sig:
Leikurinn er henni tæki til að kynnast borginni. Hér sem annars
staðar er það henni mikilvægt að hún finni öllu samastað, sinn rétta
stað. I huganum fylgir hún skipulagi borgarinnar. Frá fyrsta hverfi í
norðausturhorninu og út í níunda, les sig eftir ímynduðu korti eins
og blaðsíðu í bók, frá vinstri til hægri.
I New York væri Laugavegurinn Broadway, í Amsterdam Kal-
verstraat, í Kaupmannahöfn Strikið. Vesturbærinn væri norðurhluti
Rotterdam, ellefta hverfi Parísar og Upper West í New York. Ein-
stöku götur geta einnig haft sínar tilsvaranir í öðrum borgum.
Fishersund birtist óvænt í Amsterdam og gata í Kaupmannahöfn
gengur aftur í Þingholtunum. [...] Vaka lítur upp frá strauinu, gegn-
um gufuna út á ána. Áin er allar ár í öllum borgum. Tíber í Róm og
Signa í París, Maas í Rotterdam og Moldá í Prag, Rón í Lyon og Rín
í Köln. (s. 92-93)
Þessi lýsing varpar ljósi á þá fullyrðingu, sem finna má snemma í skáld-
sögunni, að borgin sé allar borgir. Logi les þessi orð í ferðabæklingi sem
hann finnur fyrir tilviljun en þar segir ennfremur að sérhvert smáatriði
innan borgarinnar sé „tákn allra annarra í öllum öðrum borgum, og þó
er borgin ekki endanleg, engin lausn er í henni falin“ (s. 19).
Þýðingarleikinn í Borg má nota sem túlkunarlykil að sögunni og
þeim bókmenntaveruleika sem hún tilheyrir. Raunin er sú að einstök at-
riði í frásögn Rögnu vísa til hliðstæðra lýsinga í öðrum íslenskum skáld-
sögum með svo skýrum hætti að vart er um tilviljun að ræða. Sögurnar
sem ég hef hér einkum í huga eru Stálnótt eftir Sjón, Byggingin eftir
Jóhamar og Miðnætursólborgin eftir Jón Gnarr. Yfir vötnunum í öllum
verkunum svífur andi bandarískra vísindaskáldsagna og -kvikmynda en
þær eiga það einnig sameiginlegt að spá í framtíð og eðli borgarinnar og
borgarbúans. Með því að fara í bókmenntalegan þýðingarleik með þessa
texta má ef til vill endurgera hið ímyndaða borgarkort sem Vaka les við
strauborðið í Borg, „eins og blaðsíðu í bók, frá vinstri til hægri“. Lýsing
Rögnu á þessu korti býður raunar heim slíkum lestri, þar sem hún virð-
ist innblásin af einum kafla Byggingarinnar eftir Jóhamar. Siggi, ein af