Skírnir - 01.09.1999, Blaðsíða 240
486
JÓN KARL HELGASON
SKÍRNIR
varð. Ekkert hefur glatað formi sínu, jafnvel grannir þræðir biðukoll-
unnar eru frystir í sinni upprunalegu mynd. Og ekkert bærist þegar
vindurinn blæs. (s. 38-39)
Johnny skilur eftir fjögur marmarasvört egg á stærð við barnshöfuð í
vélbyssuhreiðri þarna í geislavirkum móanum og fyrr en varir vaxa þar
og ungast út fjórir banvænir djöflar, að hálfu lífverur og að hálfu vélar.
Miðnætursólborg Jóns Gnarrs kom út tveimur árum á eftir Stálnótt á
vegum Smekkleysu, því framsækna útgáfufyrirtæki sem er að hluta til
rekið af gömlum félögum Sjóns úr súrrealistahópnum Medúsu. Líkt og
Stálnótt og Borg hefst frásögnin á ökuferð til framandi borgar sem staðið
gæti á suðvesturhorni Islands. Aðalpersónan, illmennið Runólfur, er að
ljúka þriggja ára vist á Letigarðinum og stígur upp í innréttaða sendibíl-
inn sinn sem bíður utan við fangelsið. Hann stefnir til borgarinnar:
Og loks gægist Miðnætursólin fram undan hæðarbarði. Fyrst einsog
lítil ljósrönd, svo einsog hálfmáni á hlið. Augnabliki síðar gnæfir hún
yfir honum, þar sem hún grúfir sig yfir borginni í allri sinni lygilegu
stærð, rauð sem blóð og köld sem klaki. Hún hylur sjóndeildar-
hringinn rauðu mistri og risavaxin stórborgin með öllum sínum yfir-
gefnu verksmiðjum og háhýsum líkist helst leikfangalandi eða litlum,
skelfdum fugli sem biður köttinn að þyrma sér. Borgin veit að dagar
hennar eru taldir. (s. 15)
Miðnætursólborgin ber þannig öll svip úthverfisins sem Úlla ekur í
gegnum í upphafi Borgar; „enginn fugl flýgur yfir húsþökunum, ekkert
gras grær neins staðar. Allt löngu dáið“ (s. 16). I skáldsögu Jóns Gnarrs
fer að vísu engum sögum af borgarhliði með tveimur turnum. Þegar
Runólfur nálgast jaðar borgarinnar er hann stöðvaður við vegartálma af
tveimur lögregluþjónum sem eru furðu lostnir yfir að einhver ætli sjálf-
viljugur inn fyrir borgarmörkin: „Tugir manna reyna að flýja héðan á
hverjum degi...og svo kemur einhver asninn og biður um að sér verði
hleypt inn!“ segir annar lögregluþjónninn (s. 15). Runólfur kveðst eiga
vini í borginni en það kemur líka á daginn að hann á þar óuppgerða
reikninga.
Ljóst er að ýmsir drættir í borgarmynd þeirra Sjóns, Jóns Gnarrs og
Rögnu eru sóttir í kvikmyndir á borð við Mad Max, Robocop, The
Escape from New York, Alien og Blade Runner en það má líka gera sér í
hugarlund að þær sæki ýmislegt hver til annarrar. Eg vil raunar ganga
svo langt að fullyrða að öll skáldin séu að lýsa sömu borginni, en á ólík-
um söguskeiðum. Rökin fyrir þessari samsæriskenningu sæki ég í Bygg-
ingu Jóhamars, en hún kom út á vegum Smekkleysu árið 1988, á milli
Stálnœtur og Miðnætursólborgarinnar. Þar leynist lykill að hamförunum
í hinum bókunum þremur.