Skírnir - 01.09.1999, Page 242
488
JÓN KARL HELGASON
SKÍRNIR
ingnum í Borg sem við lögðum upp með í þennan þýðingarleik: Enda
þótt hvert smáatriði innan borgarinnar sé „tákn allra annarra í öllum
öðrum borgum [...] er borgin ekki endanleg, engin lausn er í henni falin“
(s. 19).
R
Borgin í skáldsögunni Borg er samkvæmt skilgreiningu allar borgir og
inniheldur bæði jákvæða og neikvæða þætti þéttbýlismyndunar.
Ferðabæklingurinn sem Logi rekst á dregur ekki fjöður yfir síðarnefnda
einkennið. Þar er bent á að sum hverfi borgarinnar séu illa séð: „Þar ríkir
meiri óreiða en annars staðar, þar eru framdir fleiri glæpir, meira er um
uppreisnir og götuóeirðir" (s. 27). Síðar í bókinni kynnist Vaka slíku
hverfi af eigin raun þegar hún fer í gönguferð eitt þokudrungað kvöld í
september. Til að byrja með er hún alsæl, það skiptir hana engu þótt
þokan ræni borgina kunnugleika sínum og merkingu: „Vaka er ekki villt.
Hún veit hvar hún er og hvert götuhornið á fætur öðru kemur henni
kunnuglega fyrir sjónir. Hún hefur götukort af borginni greypt í huga
sér og sér sjálfa sig sem lítinn blikkandi rauðan punkt á kortinu" (s. 142).
En eftir því sem hún gengur lengra glatar hún þessu sjálfsöryggi, þokan
verður þykkari, litli rauði punkturinn hættir að blikka á kortinu:
Hún er villt. Gæti allt eins verið í annarri borg því borgin er síbreyti-
leg. Smærri breytingar eiga sér stað dag hvern. Gömul hús eru rifin
og ný byggð í þeirra stað. Torg og götur breyta stöðugt um nöfn.
Hún skilur ekki götunöfnin lengur. Tðrakibaas? Hún hristir höfuð-
ið. Aklójsf? Álasar sjálfri sér í huganum fyrir að hafa ímyndað sér að
hún gæti ratað heim í svona þykkri þoku. (s. 146)
Þessi martröð Vöku heldur áfram, hún álpast inn í hverfi þar sem heilar
húsalengjur „eru í fullkominni niðurníðslu“, í litlu kjallaraherbergi sér
hún „fáeinar hræður norpa í kringum bál á miðju gólfi“ og „þeirri ótrú-
legu hugsun slær niður í höfuð hennar að hún sé stödd í annarri borg, í
einhverri hugsanlegri Sarajevo, og muni innan skamms upplifa hörm-
ungar stríðsins" (s. 146-47).
Sá samsláttur ólíkra staða sem hér á sér stað virðist hafa verið íslensk-
um rithöfundum ofarlega í huga um það leyti sem Borg kom út, árið
1993. Sama ár sendi Sveinn Yngvi Egilsson frá sér ljóðabókina Aðflutt
landslag og er titilljóðið stuttur prósatexti sem lýsir þeirri reynslu að
ferðast um sveitir Skotlands og rekast á „fjall sem hefur undarlega ís-
lenskt svipmót og sker sig jafnvel svo úr umhverfinu að það er eins og
það eigi þar ekki heima“. Á þessu telur ljóðmælandi vera eðlilega jarð-
fræðilega skýringu, „því þetta er að öllum líkindum íslenskt fjall sem hef-
ur færst úr stað“, hugsanlega hefur það „fylgt einhverjum sveitamannin-