Skírnir - 01.09.1999, Page 255
SKÍRNIR
SKERFUR TIL MENNINGARSÖGU
501
kunnugt um, örugg rök fyrir þeirri tilgátu að mannsnafnið Faxi hafi
nokkurn tíma verið til, enda mun það vera dregið af örnefnum.
Islensk og orkneysk sagnaritun
Nú er mál til komið að sinna þrem síðustu köflunum í bók Helga:
„Orkneysk og íslenzk fornrit", „Nokkur fornrit" og „Þrír höfundar“. I
Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar er svofelld málsgrein: „Jarl [= Sigurður
Hlöðvisson] þakkaði honum orð sín. Þeir fóru síðan til Irlands og börð-
ust við Brján konung, ok urðu þar mörg tíðendi senn, sem segir í sögu
hans.“16 Eftir íslenskri málvenju ætti „saga hans“ að vísa til Brjáns, sem
nefndur er rétt á undan, en þó er hitt gömul hugmynd að hér muni vera
vikið að “’Sigurðar sögu Hlöðvissonar, en hún er gersamlega glötuð, þótt
leifar úr henni kunni að prýða aðrar sögur, svo sem frásagnir í Njálu og
Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar af Brjánsbardaga, og þó sérstaklega Orkn-
eyinga sögu.
I bók sinni tekst Helgi á hendur að kanna þessa glötuðu :'’Sigurðar
sögu, að rekja rætur þaðan til fólks og atburða á Bretlandseyjum og þar
með þann slóða sem hún kann að hafa dregið. Helgi styður tilgátu sína af
miklum lærdómi og sannfæringu, jafnvel þótt mér finnist sum atriðin í
málafærslu hans ærið léttvæg. Helgi kemst að þeirri niðurstöðu að *Sig-
urðar saga hafi verið gerð skömmu eftir 1171 og mætti helst ætla að unn-
ið hafi verið að samantekt hennar í Orkneyjum, en þó muni hafa verið
gengið frá henni á Islandi. Að því leyti svipar ''Sigurðar sögu þá til Sverr-
is sögu Karls ábóta og Orkneyinga sögu, sem Helgi eignar Páli Jónssyni
síðar Skálholtsbiskupi (1155-1211), eins og bráðum verður minnst.
Helga þykir sennilegt að höfundur '’Sigurðar sögu jarls hafi notað
írskt rit um jarlinn og að írskt tímatal hafi „markað honum stað, og síðan
hefur forsögulegum jörlum verið raðað á undan honum í Orkneyinga
sögu“ (bls. 206). Hér er verið að ryðja nýjar brautir í fræðum; sjaldan
grillir í troðnar slóðir; frjóvar hugdettur ráða yfir sagnfræðilegum rök-
um. Svo sannfærður er Helgi um tilvist "’Sigurðar sögu að hann beitir
henni til að skýra kynleg ummæli frá skoska rithöfundinum Sir Walter
Scott (1771-1832) um gamalt fólk á Rínansey, sem átti að hafa kunnað
Darraðarljóð utanað: „En hafi Darraðarljóð verið þekkt í Rinansey17 á
18. öld, getur ástæðan varla verið önnur en sú, að handrit með kvæðinu
hafi verið til í Orkneyjum fram eftir öldum. Það var sennilega Sigurðar
saga Hlöðvissonar" (bls. 251).
16 íslenzk fornrit XI (1950), bls. 301.
17 í sambandi við þetta eyjarheiti spjallar Helgi um dýrlinginn Ninian og
minnist þó ekki á bók um hann eftir John MacQueen, St. Nynia. A study
based on literary and linguistic evidence (Edinborg 1961).