Skírnir - 01.09.1999, Page 266
512
GUNNAR J. ÁRNASON
SKlRNIR
stytturnar standa yfirleitt teinréttar, með hendur og fætur beinar og
horfa beint fram fyrir sig.
Afsteypan er þó engin meginregla sem Ragnhildur fylgir skilyrðis-
laust. Innyfli og annað mannlegt innvols, sem birtast ýmist sem kökur á
diski eða veggskraut, eru ekki afsteypur af iðrum manna, enda væri sjálf-
sagt erfitt að koma því við. En það sama gildir um innyfli og annað
myndefni, að Ragnhildur leitast við að viðhalda hlutleysi eftirmyndar-
innar.
Eina meðhöndlunin á líkamsforminu, sem Ragnhildur leyfir sér, er
að sneiða afsteypurnar eins og kjötvinnslumaður sem rennir frosnum
skrokki í gegnum bandsög. Þessi kaldranalega meðferð á mannlegu holdi
gæti allt eins átt heima í annars flokks hryllingsmynd. Listamönnum er
ætlað að fara mjúkum höndum um myndefni sitt og gæla við það, en
Ragnhildur meðhöndlar búka eins og krufningalæknir eða slátrari.
Þrátt fyrir þessa óvægnu hlutlægni og höfnun á hefðbundum listræn-
um vinnubrögðum er brothætta viðkvæmni og líf að finna í myndunum.
Og áhrifin eru enn meiri einmitt vegna þess að allt virðist vera gert til að
halda listrænni tjáningu í skefjum. Það er einna líkast því að Ragnhildur
hafi byggt inn í myndir sínar ráðgátuna um samband líkama og sálar.
Gifssneiðmyndir Ragnhildar endurspegla að mörgu leyti tíðarand-
ann. Engum dylst að hugmyndir Vesturlandabúa um hina heildstæðu
manneskju eru í upplausn. Nú er frekar hugsað um að sundurgreina,
einangra, stjórna og meðhöndla, eins og líkaminn væri fyrirtæki sem ein-
staklingurinn er stjórnarformaður yfir. Líkamsheildin hefur hrokkið í
sundur og brotunum er raðað saman, án þess að þau tolli saman á sann-
færandi hátt. Vera má að myndirnar endurspegli kaldlynda hörku líf-
vísinda frammi fyrir nöktum veruleikanum, en það vottar ekki fyrir
þjóðfélagsádeilu eða gagnrýni í þeim. Það er ekki verið að magna upp
ímynd upplausnar sem ógnun við þjóðfélagslegan stöðugleika, enga
kaldhæðni gagnvart hnignun vestrænnar menningar, eins og hefur verið
svo algengt í myndlist áratugarins. Gengið er út frá hinu óstöðuga
ástandi mannslíkamans sem sjálfgefnu og alls staðar skín í gegn um-
komulaus og tilfinningalega brothættur einstaklingur. Þessi einstæða
vera stendur á miðju gólfinu og það má lítið við henni stugga ef hún á
ekki að hrökkva í sundur. En hrun er ekki endilega yfirvofandi, því það
sem heldur líkamanum saman og gerir hann að lifandi veru, einstaklingi
frekar en samsafni parta á diski, er eining skynjunar og tilfinninga.
Gunnar J. Arnason