Vestfirska fréttablaðið


Vestfirska fréttablaðið - 14.12.1981, Síða 5

Vestfirska fréttablaðið - 14.12.1981, Síða 5
 Sr. Agnes Sigurðardóttir: Jólahugvekja 5 Ein sælasta minning mín frá uppvaxtarárunum á Vestfjörð- um eru guðsþjónusturnar á jólunum. Allir komu til kirkjunnar með jákvæðu hugarfari. Hátíðarsöngvarnir og jólasálmarnir voru sungnir af mikilli innlifun. Það lá við að kirkjan titraði af söng safnaðarins. Lúkas guðspjallamaður segir okkur frá atburðum jólanna, frá fyrsta boðbera þeirra og fyrstu vottum þeirra, sem urðu mjög hræddir er engill Drottins stóð skyndilega hjá þeim. ,,En engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“ (Lk. 2: 10-12). Engillinn er fyrsti boði jólanna. Fyrstu boð jólanna voru þannig komin frá himnum. En fyrstu vottarnir voru hirðar. Ekki menn af hæstu stigum þjóðfélagsins, heldur menn, sem voru að gæta hjarðar sinnar úti í haga, þegar þeir fengu að heyra boðskapinn. Vegna engilsins og hirðanna höfum við fengið að heyra boðskap jólanna, um barnið, sem fæddist hér á jörð fyrir hartnær 2000 árum við frumstæðar ytri aðstæður. Þegar það fæddist í vesælu gripahúsi veitti enginn því athygli. Engum fannst það merkilegt þótt smælingjum eins og Maríu fæddist sonur. Þannig var það lítt áberandi á jörðinni, sem haft er í hæstum heiðri á himnum. En söguna um fæðingu þessa barns fengju menn varla að heyra öld eftir öld ef ekki hefði neitt fylgt henni. Vegna orða Lúkasar guðspjallamanns hér að framan er hún í frásögur færandi. Menn hafa tekið við boðskapnum öld eftir öld eins og fjárhirðarnir. Boðskapnum um fæðingu frelsarans og hann þurfum við ekki að óttast. „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ Þetta er boðskapur jólanna. Sá sem gefur frelsið, flytur friðinn er fæddur. Guð hefur vitjað lýðs síns. Hann leysir úr fjötrum ótta og spillingar og reisir við hinn fallna mann. Jólaboðskapur- inn er því ekki hugljúft ævintýr um unga stúlku, sem fæddi son sinn frumgetinn og vafði sjálf reifum, heldur lifandi raunveru- leiki og boð til þeirra sem við Guð vilja tala. Þetta er kostaboð, um frelsara, sem er stöðugur og kærleiksríkur og er alltaf við. Hann hefur ekki viðtalstíma fáeinar stundir á viku, heldur allan sólarhringinn, alla daga jafnt. Þegar börn fæðast í þennan heim, hefur það jafnan miklar breytingar í för með sér fyrir foreldra þeirra. Ekki aðeins að þau breyti um lífshætti, heldur einnig lífsviðhorf. Þeir líta lífið öðrum augum, kynnast nýju fólki í gegnum barnið og gleyma aldrei tilveru þess. Þannig er það einnig við fæðingu jólabarns- ins. Með tilkomu þess er nýtt viðhorf komið í heiminn. Viðhorf sem tekur mið af því að Guð er með okkur. Hann er sá sem gefur styrk og græðir sár. Hann er sá sem leysir manninn úr fjötrum myrkurs og ótta. Hann er sá sem gefur t.d. ofdrykkju- mönnum styrk til að láta af drykkju sinni og hann er sá sem gefur fjölskyldu ofdrykkjumannsins gleðileg jól, þrátt fyrir drykkju hans. Vegna hans eins getur fjölskyldan þolað við og jafnvel glaðst, þrátt fyrir þá röskun, sem hún verður fyrir. Hann gefur hinum sjúka kraft til að takast á við veikindi sín og hann gefur honum von um bata. Einungis vegna hans hefur hinn sjúki von, og getur horft björtum augum til framtíðarinn- ar, þrátt fyrir allt. Með fæðingu jólabarnsins eignaðist heimur- inn vonina. Vonina um fögnuð, frið og frelsi í heimi sem er réttlátur ef Guð fær að ráða. Sá heimur er heimur þar sem allir hafa jafna aðstöðu til lífsins gæða og hafa þar af leiðandi getu til að framkvæma langanir sínar, svo framarlega sem þær ganga ekki á rétt náungans. Með því að taka við litla jólabarninu, eignaðist maðurinn nýtt líf. Hann lítur það öðrum og bjartari augum. Þessu má líkja við sjóndapran mann sem setur upp gleraugu. Án þeirra sér hann allt óskýrt, í hálfgerðri móðu, en við það að setja upp gleraugu, verður allt skýrt og það er sem afstaða eins hlutar til annars breytist. Á sama hátt breytist afstaðan til lífsins við að taka við jólabarninu. Minning mín frá uppvaxtarárunum á Vestfjörðum hefði aldrei orðið, ef jólabarnið hefði ekki fæðst. Vegna nærveru þess og lífs fékk söfnuðurinn að syngja af svo mikilli innlifun. Nærvera þess var augljós annars hefði svo ekki verið. Guð gefi að söfnuðirnir á Vestfjörðum finni hana einnig á þessum jólum, sem endranær. Agnes Sigurðardóttir. a

x

Vestfirska fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vestfirska fréttablaðið
https://timarit.is/publication/1149

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.