Vestfirska fréttablaðið - 14.12.1981, Side 9
I vesttirska I
rB.ETTA3i.ADlB
Heimir Már:
Hugsað
á vorkvöldi
Þú hefur víst heyrt
þetta um það
þegar fólk kemur
og fer.
Hvernig fólk kemur
og snýst í kring
um þig
og hverfur svo.
Þú þekkir víst
þessa tilfinningu
þegar svipum
bregður fyrir
í huga þér
og þú fyllist
einhverskonar saknaðartilfinningu.
Þú þekkir víst tilfinninguna
þegar gleðistraumar
fara um þig
og þig langar
til að grípa
öll augnablikin
og njóta þeirra á ný.
Svo ég þarf
ekki að segja þér
hvemig mér leið kvöldið
sem minningin um þig
gagntók mig.
Heimir Már:
í kyrrðinni
I kyrrðinni
og aðeins í kyrrðinni
finnurðu andardrátt þinn
og hjarta þitt slá
finnurðu sorg þína
og gleði.
Aðeins þá
geturðu fundið
fyrir ást þinni
fundið að þú lifir
og bærist í hringiðunni.
í kyrrðinni
getur þú fundið
fyrir feimnislegum
strokum mjúkra handa þinna
leika hlýlega
um líkama þinn.
Aðeins þá
geturðu fundið
þreytuna synda
eftir æðunum
og hvernig hvíldin
vefur þig örmum
drauma.
í kyrrðinni
heyrirðu öll þau agnarsmáu hljóð
sem annars tifa hlédræg
í hornum og skotum
þú finnur lífið bærast
og þú skynjar
að þú ert hluti
af þessu öllu.
Heimir Már:
Þó
svo himnar
gráti
Þó svo himnar gráti
og ekki liðin mannsæfi
frá tilraununum á Nagasaki og Hirosima
og ennþá séu börn steikt á teinum
ennþá uppi ráðabrugg
um frekari tortímingu
þá er alltaf von
von sem okkur ber skylda
til að rækta með okkur
svo einn góðan veðurdag
megi friður blómstra
um víða veröld.
Heimir Már Pétursson er ungur
Isfirðingur, sem hefur varið
nokkru af tíma sínum til Ijóða-
og smásagnagerðar. Heimir,
sem er aðeins 19 ára gamall,
hefur þegar sent frá sér tvær
Ijóðabækur, „Sólin sest og sól-
in kemur upp“ og „Dropi í
hafið".
Heimir Már:
Þetta
var
einn
af
y
v
þessum dögum
Þetta var einn af þessum dögum, þegar sálin var lítil og vanmáttartilfinningin
náði völdum á honum. Hann sat í herberginu sínu, með ljúfa músik á fóninum,
með kertaljós og reyndi að komast að niðurstöðu, reyndi að finna sér einhvern
punkt í tilverunni. Hann langaði ekki til að gráta.
Nei, kannski frekar til að öskra, þó ekki. Hann langaði til að hjúfra sig upp að
einhverjum, fella nokkur tár, og heyra einhvern segja sér að lífið væri gott.
Það rifjaðist upp fyrir honum, að þegar hann var yngri, þá gekk hann oft upp
í hlíðina fyrir ofan bæinn, þegar svona lá á honum. Hann mundi eftir því, að
hann hafði eitt sinn fundið dauðan fugl í fjallinu. Tekið hann og grafið á bak við
stein.
Hann gekk út úr herberginu, fór fram og klæddi sig í úlpuna. Þegar hann
ætlaði að fara að ganga út, tók hann eftir litlum vendi af páskaliljum i vasa á
stofuborðinu. Hann tók tvær liljur, eina rauða og eina gula. Svo gekk hann út.
Veröldin var á sínum stað, það lá alltaf eins á henni. Hann gekk upp í hlíðina.
Hvar var hann þessi steinn?
Eftir að hafa ráfað um hlíðina í einhvern tíma, kom hann auga á lítinn strák.
Varla meira en svona sjö-átta ára. Hann horfði á þennan strák, sem sat í grasinu,
svipur hans lýsti sorg. Ljósa hárið hans bærðist eins og bifukolla í golunni, hann
var gamaldags klæddur, hann hafði aldrei áður séð þennan litla strák. Gekk að
honum og sagði: „Má ég setjast hjá þér?“ Strákurinn leit upp, brosti, augu hans
sögðu já. Þeir sátu svo þarna báðir í grasinu, horfðu út í loftið, báðir ósköp litlir.
„Hvað ætlar þú að gera við þessar liljur?“ spurði strákurinn.
„Það var svo sem ekkert,“ sagði hann, „tók þær bara með, þeim leiddist svo
heima, í stofunni.“ Strákurinn kinkaði kolli.
„Hvað ert þú að gera hér?“ spurði hann strákinn.
Strákurinn þagði. Hann sá að hendur stráksins voru moldugar, og það blæddi
undan nöglunum. Við hlið hans var lítil moldarhrúga, lítil gröf. Strákurinn tók
eftir því, að hann horfði á hrúguna.
„Hann var svo lítill, hann hlýtur að hafa villst,“ sagði strákurinn og brosti.
Hann stóð upp. Horfði á strákinn, hann var líka lítill, hafði hann villst? Hann
lagði liljurnar, eina rauða og aðra gula, ofan á moldarhrúguna.
„Þú spurðir hvað ég væri að gera hér,“ sagði strákurinn, „ég var að bíða eftir
þér.“ Svo breyttist hann í lítinn fugl, sem flaug syngjandi í burtu. Samlagaðist
hópi af fleiri fuglum, sem flugu í átt til sólar. Hann horfði á eftir þeim, þar til
þeir hurfu.
Hann gekk brosandi niður hlíðina. Fuglasöngurinn ómaði í eyrum hans, sagði
honum að lífið væri gott.